INGÓLFUR MARGEIRSSON KVADDUR


Birtist í DV 20.04.11.
Í pólitíkinni stóð Ingólfur Margeirsson staðfastur í kratismanum. Almennt frekar í nöp við pólitíkina þar til vinstri og Íhaldið vildi hann ekki. Þeir sem trufluðu siglingu jafnaðarmannaskútunnar áttu ekki upp á pallborðið hjá vini mínum. Ekki heldur undirritaður ef því var að skipta. Þá fékk ég að finna til tevatnsins. En sama hvað Ingó skammaði mig fyrir villukenningar, truflaði það aldrei vináttu okkar. Hún átti dýpri rætur en svo.
Við Ingólfur Margeirsson höfum verið samferða í gegnum lífið allt frá sjö ára aldri. Leiðir okkar lágu fyrst saman í Melaskólanum í Vesturbænum í Reykjavík um miðjan sjötta áratuginn, síðan yfir í Hagaskóla, þá í MR. Þetta var litríkur hópur, Vimmi, Krummi, Magga Björns og Malla Schram. Og mörg fleiri, sem settu svip sinn á umhverfið.
Þessi hópur hnýtti með sér sterk vinabönd sem héldu þótt stundum reyndi á þau. Þótt liðu ár og dagar án þess að félagarnir hittust þá breytti það engu. Kannski er það þannig með vináttubönd sem hnýtt eru á unga aldri.
Ingólfur átti við alvarlegan heilsubrest að stríða á undanförnum árum. Ekki fór framhjá neinum hvílíkan hetjuskap hann sýndi  í baráttu sinni við heilsuleysið. Eftir að heilsan gaf sig sneri Ingólfur vörn í sókn og hóf háskólanám. Við höfðum báðir gaman af þegar leiðir okkar lágu saman í kennslustofu Háskóla Íslands þar sem ég hafði með höndum stundakennslu í sagnfræði en Ingólfur hafði einmitt valið sagnfræðina sem sitt háskólafag í seinni umferð. Ekki veit ég hvort honum þótti ég eins skemmtilegur kennari og mér þótti hann sem nemandi.
Annars kynntust landsmenn Ingólfi Margeirssyni helst sem rithöfundi góðum og síðan þáttagerðarmanni í útvarpi. Þekktur var hann af þáttum sínum um bresku Bítlana og ljóst að hann bjó yfir miklum skilningi á tónlist þeirra. Þessu kunni hann öllu vel að miðla og varð fyrir vikið vinsæll útvarpsmaður. Annálað er hve drátthagur Ingólfur var. Hann var afkastamikill Fánu-teiknari og þegar Ingólfur tók viðtöl við menn sem blaðamaður átti hann það til að rissa upp mynd af viðkomandi. Þar reyndist hann oft naskur á að fanga karaktereinkennin. Í honum var mjög sterk listræn taug.
Margar myndir koma upp í hugann þegar Ingólfur vinur minn er annars vegar. Einu sinni hittumst við í Klúbbnum sáluga. Þetta var upp úr 1970, báðir í námi á fjarlægum slóðum. Höfðum ekki sést í nokkra mánuði, kannski nokkur ár. Urðu fagnaðarfundir. Ingó sagðist bjóða upp á sjúss. Hvað á það að vera? spurði barþjónninn. Whisky, sagði Ingó. Á það að vera tvöfaldur? var enn spurt. Nei, við skulum hafa þetta vinarsjúss sagði Ingó og benti á barminn á glasinu. Þangað átti að hella.
Þannig var Ingó. Alltaf gjöfull en svolítið villtur. Seinna steig hann upp á barmana á glasinu og leit aldrei niður. Hann var í stjórn SÁÁ árum saman og hjálpaði mörgum til betra lífs.
Nú sakna ég míns góða vinar. Og eftir allar skammirnar sem ég fékk frá Ingó eftir að ég gekk úr ríkisstjórninni á sínum tíma; óvægnar skammir alveg án hanska, einsog hann átti til, þótti mér vænt um að sjá á nýlegri færslu á ingo.is að minn gamli vinur hafði tekið mig í sátt að nýju.
Í veikindum sínum naut Ingólfur ástríkis og stuðnings konu sinnar og fjölskyldu, sem ekki fór framhjá neinum sem til fjölskyldunnar þekkja.
Þeim sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.
(Útför Ingólfs fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 27. apríl)

Fréttabréf