ÁSMUNDUR EINAR

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG, ákvað í gær að segja sig úr þingflokki VG og hverfa frá stuðningi við ríkisstjórnina. Mér er mikil eftisjá að Ásmundi Einari úr þingflokknum og að sjálfsögðu er ég honum ósammála um afstöðuna til ríkisstjórnarinnar eins og fram kom í mínu máli við umræðu um vantrauststillögu Sjálfstæðisflokksins í gær.
Í sjálfu sér þarf engum að koma á óvart ákvörðun Ásmundar Einars því hann hefur um langan tíma verið þungorður í garð ríkisstjórnarinnar og gagnrýnt sinn eigin flokk, VG,  fyrir að bregðast hugsjónum sínum. Þar hefur Ásmundur Einar einkum staðnæmst við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Sjálfur er hann formaður Heimssýnar, samtakanna sem  berjast gegn aðild að ESB og fyrir fullveldi Íslands, og hefur hann margoft lýst því yfir að þetta sé það málefni sem heitast brenni á sinni pólitísku samvisku.
Ásmundur Einar Daðason er hugsjónamður, ungur eldhugi, sem tekið hefur erfiða ákvörðun í samræmi við sína bestu sannfæringu og hugsjón. Ég óska honum alls hins besta um ókominn tíma.

Mín afstaða til vantrauststillögunnar: http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20110413T180442&horfa=1

Fréttabréf