„VIÐ VORUM RÆND"

Á nýafstöðnu málþingi sem embætti Ríkissaksóknara og
Ákærendafélagið efndu til í lok síðustu viku, kom til orðaskipta á
milli mín og Gests Jónssonar, hæstaréttarlögmanns. Hann hafði í
erindi sínu m.a. gagnrýnt Evu Joly, ráðgjafa stjórnvalda í rannsókn
á efnahagshruninu, svo og þá ákvörðun að setja á fót embætti
Sérstaks saksóknara. Ég sagðist líta svo á að Eva Joly væri frjáls
orða sinna ekkert síður en Gestur Jónsson og ríkissaksóknari sem
einnig hafði gagnrýnt Evu Joly.
Þá varði ég frelsi ráðherra til að tjá sig. Ég vísaði í erindi mitt
á ráðstefnunni um þrískiptingu valdsins og mikilvægi þess að réttur
hins pólitíska valds til skoðana- og tjáningarfrelsis væri virtur.
( Sjá hér: http://ogmundur.is/annad/nr/5707/)
Varðandi skipulagsbreytingar og "sérstakar" ráðstafanir sem gripið
hefði verið til svo efla mætti ákæruvaldið, yrðu menn að horfast í
augu við þann veruleika sem við Íslendingum blasti í kjölfar
bankahrunsins. Við hefðum verið rænd. Sá veruleiki hefði verið að
birtast okkur í ýmsum myndum, en afleiðingarnar væru þær að
almeninngur, samfélagið, yrði að gjalda fyrir misferlið í
fjármálalífinu. Þess vegna væri rétt að tala um að samfélagið hefði
verið rænt. Það væri grundvallaratriði að rannsókn færi fram og að
þeir sem væru ábyrgir yrðu látnir svara til saka.
Svona má ráðherra dómsmála ekki tala, sagði Gestur
Jónsson við þessu. Önnur eins ummæli hefðu lent fyrir
mannréttindadómstól og gætu eyðilagt og ógilt málarekstur! Ég
auglýsi eftir þeim málum sem hér er vísað til og vil ég gjarnan í
framhaldinu ræða málefnið frekar. Mín yfirlýsing var almenns eðlis
en ekki tilvísun í einstök mál. Á þessu er grundvallarmunur sem ég
hefði haldið að minn gamli vinur og samstarfsmaður til áratuga,
lögspekingurinn og hæstaréttarlögmaðurinn, Gestur Jónsson, áttaði
sig á. Eða getur verið að vilji standi til að færa okkur í áttina
að réttarkefi sem byggir ekki á því að finna út hvað rétt er,
heldur hvort formgalli finnist á málatilbúnaði til að torvelda
slíka leit? Þá gætu vissulega ummæli ráðherra dómsmála komið til
athugunar. Það á hins vegar ekki við um yfirlýsingar sem eru
almenns eðlis og snerta ekki einstök mál. Þess vegna endurtek ég
óhikað staðhæfingu sem allir vita að er rétt: Við vorum
rænd!
Sjá m.a. :
http://visir.is/ord-innanrikisradherra-umdeild/article/2011110318844