MEÐ FRESLI - GEGN OFBELDI

 

Birtist í DV 07.03.11.
DV"Forvirk rannsóknarúrræði" er fyrirsögn greinar sem Eiríkur Bergmann skrifar í DV síðastliðinn föstudag. Þar segir hann mig, sem innanríkisráðherra, boða auknar rannsóknarheimildir til lögreglu í þeim mæli "sem Björn Bjarnason gat aðeins látið sig dreyma um". Nú er ég ekki sérfræðingur í draumförum Björns Bjarnasonar, forvera míns sem ráðherra dómsmála. Hitt veit ég þó að honum var umhugað um að efla rannsóknarheimildir lögreglu gagnvart glæpahópum og vorum við um það sammála. Það sem um var deilt á sínum tíma - og er það rétt hjá Eiríki Bergmann að þar fór ég framarlega í flokki - var hvernig slíkum heimildum skyldi háttað, hve umfangsmikil rannsóknarstarfsemi ætti að vera og á hvaða forsendum.

Glæpir en ekki stjórnmálaandóf

Þannig vildi ég ekki að slíkar rannsóknarheimildir næðu til stjórnmálastarfsemi og grasrótarhópa, heldur yrðu þær takmarkaðar við hreina glæpastarfsemi samkvæmt hefðbundnum málskilningi okkar.
Læt ég Björn Bjarnason um að standa fyrir sínu máli, ef hann svo kýs, en ég þá fyrir mínu. Erlendar leyniþjónustur hafa margar hverjar heimild til að fylgjast með einstaklingum og hópum ef þeir eru taldir ógna öryggi ríkisins eða vera líklegir til að skaða samfélag sitt. Hugtakið forvirk rannsóknarúrræði miðast þá við það að koma í veg fyrir að skaðanum verði valdið. Dómsúrskurður er ekki reglan og fara leyniþjónusturnar sínu fram - stundum þó með þinglegu eftirliti. Allur gangur er þó á þessu og eru rannsóknarheimildir og eftirlit með ýmsu móti í þeim ríkjum sem við helst berum okkur saman við.

Íslenska leiðin

Sú leið sem íslenska lögreglan óskar að fara og ég hef veitt minn stuðning, er að útvíkka rannsóknarheimildir lögreglu, t.d. þannig að lögreglan geti rannsakað starsfemi skipulagðra glæpahópa, en ekki aðeins einstaklinga. Milli mín og lögreglu er hins vegar samhljómur um - og er það lykilatriði - að slíkar heimildir skuli ekki veita nema að uppkveðnum dómsúrskurði. Breytingin er sú að færa má hópa sem vitað er að stunda alvarlegt glæpsamlegt atferli undir eftirlit. Þar erum við að tala um glæpi á borð við eiturlyfjasölu, mansal, peningaþvætti, fjárkúgun - og síðan líkamsmeiðingar og annað ofbeldi sem haft er í frammi til að ná sínu fram.
Varnaðarorð Eiríks Bergmanns og annarra sama sinnis, eru mikilvæg og fer fjarri að ég vilji gera lítið úr þeim. En Eiríkur sem aðrir verða að fara rétt með. Það er misskilningur hjá honum að ég hafi breytt viðhorfum mínum í grundvallaratriðum varðandi réttarvernd og lýðræðislegt aðhald þegar rannsóknarheimildir lögreglu eru annars vegar. Það hef ég ekki gert. Það breytir því ekki að skilningur minn á þörfum lögreglu til að fá aukin úrræði til að glíma við ofbeldishópa er annar og meiri en áður enda hefur þróunin orðið slík að ástæða er til.

Til varnar frelsinu

"Á öllum tímum eru til öfl sem vilja reita frelsið af okkur," skrifar Eiríkur Bergmann réttilega í fyrrnefndri DV grein. Og áfram bendir hann réttilega á að iðulega hafi hryðjuverkaógn verið notuð í þessum vafasama tilgangi. En síðan gerir Eiríkur því skóna að á sama hátt sé "vörn gegn fjölþjóðlegum glæpagengjum" notuð til að "reita frelsið af okkur". Nú ríði á að "standa í lappirnar gagnvart eftirlitsáráttu stjórnvalda."
Hér fer Eiríkur Bergmann villur vegar hvað áform íslenskra stjórnvalda áhrærir. Í samfélagi okkar er fjöldi fólks sem ekki getur um frjálst höfuð strokið vegna yfirgangs ofbeldismanna. Það er skylda okkar að rísa upp til varnar frelsi þessa fólks. Út á það gengur okkar starf.

Burt með ofbeldið

Þörf er á því efla samfélagið allt til varnar gegn ofbeldismönnum og að í sameinnigu gerum við átak til að hrista ofbeldisfólk af höndum okkar. Annað veifið fáum við í gegnum fjölmiðla innsýn í ljótan heim glæpa og ofbeldis. Umræðan um þessi mál á Alþingi, í fjölmiðlum og í samfélaginu almennt ber vott um einhug til þess að gert verði stórátak í þessu efni. Ríkisstjórnin ákvað í lok síðustu viku að veita viðbótarfjármagni inn í þetta átak og fyrir dyrum stendur að breyta lögum til að auðvelda lögreglunni lífið í sinni erfiðu glímu við ofbeldið.
Það þarf enginn að hafa áhyggjur af því að ég sé ekki meðvitaður um hve vandasamt verkið er og þá ekki síst hvað varðar allt það sem snýr að lagarammanum. Sá rammi þarf að vera traustur og þess eðlis að hann þoli mismunandi einstaklinga við stjórnvölinn á öllum stigum.

Fréttabréf