INNANRÍKISRÁÐUNEYTIÐ: RÍKISBORGARARÉTTUR EKKI SÖLUVARA

Ákveðnar lagareglur gilda um hverjir skuli öðlast íslenskan ríkisborgararétt og á hvaða forsendum. Almennt ganga málin smurt fyrir sig samkvæmt þessu og hefur Innnanríkisráðuneytið framkvæmd leyfisveitinga. Í undantekningatilvikum er málum skotið til Allsherjarnefndar Alþingis sem veitt getur undanþágur frá hinum almennu reglum. Almennt hafa undanþágur verið veittar vegna hagsmuna barna eða af fjölskylduástæðum. Í þinginu hefur verið litið svo á að geðþóttaákvarðanir eigi alls ekki að gilda og að ef Alþingi er ósátt við reglurnar eigi að breyta þeim.
Nú hafa nokkrir auðmenn sóst eftir íslenskum ríkisborgararétti og lofa umboðsmenn þeirra gulli og grænum skógum öðlist þeir réttinn. Á þetta reyndi síðastliðið haust og var málaleitan þessara aðila hafnað í Innanríkisráðuneytinu og vísað í þær lagareglur sem í gildi eru. Þessi afstaða var ítrekuð í dag.
Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að ríkisfang eigi ekki undir neinum kringumstæðum að vera söluvara og að um ríkisborgararéttinn eigi að gilda almennar reglur. Sjálfum finnst mér dapurlegur sá munur sem löggjafinn gerir á réttarstöðu aðkomufólks sem upprunnið er innan EES svæðisins annars vegar og fólks sem lengra er að komið hins vegar.
En um þessar reglur eigum við að taka umræðu á þingi ef við erum ekki sátt við þær en forðast á hinn bóginn  illa grundaðar geðþóttaákvarðanir.  
Það þýðir ekki að mér finnist ekki stundum vera efni til að veita undanþágur frá hinum almennu reglum. Það verður að vera hægt. En þá reynir líka á að sanngirnis-ástæður einar ráði för en ekki hitt að íslenskur ríkisborgararéttur verði kominn undir efnahag umækjenda; að ríkir útlendingar geti keypt leyfi til að vera undanskildir almennum lögum og reglum í landinu.
http://www.ruv.is/frett/rikisborgararetturinn-ekki-til-solu
http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27063
http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/rikisborgararettur-er-ekki-til-solu-ekki-heldur-fyrir-1.700-milljarda-krona-til-10-milljardamaeringa
Jóel A. 

Fréttabréf