FJÖLMIÐLAR Í KASTLJÓSI


Talsverð umræða hefur spunnist um átak lögreglunnar og stjórnvalda til að spyrna við vaxandi glæpastarfsemi í landinu. Fram hefur komið að lögregla hefur upplýsingar um að skipulagðir glæpahópar séu að skjóta rótum og tengjast alþjóðasamtökum sem þekkt eru af brotastarfsemi. Af þessum sökum m.a., hef ég afráðið að beita mér fyrir lagabreytingu sem auðveldar lögreglu að fylgjast með þessum hópum að fengnum dómsúrskurði. Verður þess gætt að slíkir dómsúrskurðir taki einvörðungu til grófrar brotastarfsemi.

For-dómar

Í Kastljósi í gær voru þessi mál til umræðu og nefndi ég þar dæmi um fjárkúganir glæpahópa.
Sjá hér: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4545051/2011/03/07/0/
Ýmsir fjölmiðlar hafa tekið málið upp bæði hvað varðar rannsóknarheimildir lögreglu og þau dæmi sem ég tiltók. Sumir hafa reynt að kynna sér málin, öðrum dugar að dæma fyrirfram. Ég hef fengið mikil og kröftug og afar jákvæð viðbrögð og varð mér hugsað til þess þegar ég las framlag lesenda Eyjunnar hve mjög lesendahópur hennar virðist - með undantekningum þó - frábrugðinn þeim hópi sem ég heyri frá.
Sjá: http://silfuregils.eyjan.is/2011/03/08/radherra-skiptir-um-skodun/
http://eyjan.is/2011/03/07/ogmundur-gengi-krefja-einstaklinga-og-fyrirtaeki-um-verndargreidslur/

Eyjan kannar það í dag ( http://eyjan.is/2011/03/08/logregla-stadfestir-ekki-sogu-radherra-ad-fyrirtaeki-seu-krafin-verndargjalds/ ) hjá ríkislögreglustjóra hvort hann geti staðfest þau dæmi sem ég nefndi í fyrrnefndum Kastljósþætti um fjárkúganir ofbeldismanna. Að sjálfsögðu gat hann ekki gert það og sendi ég eftirfarandi athugasemd til Eyjunnar af þessu tilefni:
"Eyjan slær því upp að lögreglan geti ekki staðfest fullyrðingar mínar í Kastljósi í gær um fjárkúgun
málsins. Lögreglan fjallar um formlegar kærur og dómsmál og staðfestir slík mál.  Sjálfur heyrði ég fyrst af málum af þessu tagi í sögusagnastíl en síðan fékk  ég upplýsingar um einstakt dæmi og síðan annað. Eftir Kastljósþáttinn í gær fékk ég svo upplýsingar um enn eitt dæmi um "verndar" fjárkúgun gagnvart fyrirtæki. Dæmið um einstakling sem sætir kúgun vegna barns síns hef ég frá fyrstu hendi en öll höfum við dæmin um ofbeldisbrot handrukkara úr fjölmiðlum. Upphæðirnar þekki ég ekki.
Þótt dæmin séu ekki mörg sem ég hef fengið handfastar upplýsingar um þá skulum við hafa í huga að þessi mál eru þess eðlis að þau fara hljótt. Ef allt væri með eðlilegum hætti hefðu málin endað sem kærumál hjá lögreglu og síðan sem dómsmál. En fjárkúgarinn hefur sitt fram einmitt  vegna þess að menn veigra sér við að leita réttar síns eftir brautum réttarkerfisins. Þessu þarf að breyta og það er þess vegna sem ég hef talað fyrir félagslegri vakningu þar sem við reynum öll að veita þeim styrk sem sæta hótunum af hálfu ofbeldismanna og aðstoðum við að færa mál þeirra til lögreglu og í réttarkerfið þar sem þau eiga heima."

Fjölmiðlar dekri ekki við ofbeldi

Í pistli hér á síðunni (http://ogmundur.is/annad/nr/5695/ ) ræddi ég um hlut fjölmiðla og tilhneigingu hjá þeim sumum að hefja ofbeldismenn upp til skýjanna með því að taka í dekurviðtöl menn sem hafa fé af fólki með því að beita það kúgun og limlestingum. Nefndi ég enga fjölmilða á nafn í því sambandi. Ég leyfði mér hins vegar að minnast á fréttapistil á Pressunni þar sem forsprakki í Hells Angels gaf til kynna að forsætisráðherra og innanríkisráðherra myndu finna fyrir því líkamlega þegar Hells Angels fengju aðild að alþjóðasamtökum Hells Angels. Mér þótti undarlegt að þetta væri birt án þess að setja málið í þann gagnrýna búning sem hæfir hótunum af þessu tagi. Steingrímur Sævarr Ólafsson, ritstjóri, bregst ókvæða við eins og sjá má hér að neðan. Sannast sagna ætlaði ég Pressunni ekki þá allsherjarfordæmingu sem miðillinn tekur til sín. Ég er einfaldlega að vekja til umræðu á meðal fjölmiðlafólks um ábyrgð fjölmiðla þegar ofbeldi er annars vegar.
http://www.pressan.is/pressupennar/SteingrimurSaevarrOlafsson/abyrgd-radherra

UVG, Jón Magnússon og "rökkursögurnar"

Ung Vinstri Græn hafa ályktað gegn þeim hugmyndum sem ég hef sett fram og hlakka ég til að skýra fyrir þeim málavöxtu en UVG hefur ekki eftir þeim leitað. Sjálfur ætla hins vegar að leita eftir skýringum hjá Jóni Magnússyni, hæstaréttarlögmanni, sem segir mig segja þjóðinni "rökkursögur" um meinta glæpastarfsemi enda bresti mig kjark til að taka á rótum vandans. Því miður skýrir Jón ekki út hverjar þessar rætur vandans eru og hvernig hugaðir menn beri sig að í þessum efnum.
http://eyjan.is/2011/03/08/jon-rokkursogur-ogmundar-leysa-ekki-vandann/
Jón Magnússon hefur oft lagt gott til málanna og hvet ég hann til að koma málefnalega inn í þessa umræðu. Ef hann heldur að það eigi ekki við rök að styðjast að hér sé í vaxandi mæli stunduð handrukkun með líkamsmeiðingum, þá hefur hann aðrar upplýsingar en ég hef og vil ég segja Jóni og hverjum sem vita vill að ég byggi staðhæfingar mínar á því sem ég tel vera mjög traustan grunn. Lít ég á það sem skyldu mína að upplýsa um þessi mál - og það sem meira er, gera allt sem í mínu valdi stendur til að uppræta ofbeldisglæpi í samfélagi okkar.
Pistill Höllu Gunnarsdóttur á Smugunni um ályktun UVG: http://www.smugan.is/pistlar/fastir-pennar/halla-gunnardottir/nr/5365
Ályktun UVG: http://www.vinstri.is/

Nokkrar fréttir um sama efni:
Sjá visir.is og Stöð 2: http://visir.is/logreglan verndi folk gegn glaepaklikum/article/2011110308957
http://visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTVB1CF5182-C346-4D9B-A0F5-686D868CFF82
Smugan: http://www.smugan.is/frettir/frettir/nr/5359

Fréttabréf