Fara í efni

EF AÐEINS ÍSLENDINGAR HEFÐU...


Alistair Darling, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta, kvartar í sjónvarpsviðtali sáran yfir framgöngu íslenskra stjórnvalda haustið 2008. Svo var að skilja að allt hefði farið vel ef aðeins Íslendingar hefðu verið ögn meðvitaðri um vanda bankakerfsins og heiðarlegri gagnvart Bretum - nema hvort tveggja væri. Þá hefðu Bretar sýnt Íslendingum fullan skilning!

Í ljósi þessa er skrýtið að þegar síðan á reyndi - Bretar höfðu beitt okkur hryðjuverkalögum og öðrum þvingunum - skyldu þeir ekki sýna Íslendingum minnsta vott af skilningi heldur reisa kröfur um að sjálfir högnuðust þeir á Icesave- vandræðum Íslendinga með ósanngjörnu fyrirkomulagi endurgreiðslna og ranglátum vaxtakjörum og síðan beita Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu til að ná sínu fram.

Aldrei finnst mér það fara gömlum nýlenduþjóðum - Bretum og Hollendingum - gamalgrónum bröskurum á heimsvísu - vel að tala um arðrán.

Þetta breytir engu um aulagang íslenskra stjórnvalda og glæpsamlegt athæfi íslenskra fjármálamanna. Það hefur reynst þjóðinni eitraður kokteill sem nú leikur íslenkt velferðarkerfi grátt. Icesavedeilan minnir á að þegar valið stendur á milli eignarréttinda og mannréttinda velkist alþjóðaauðvaldið ekki í vafa um hvernig á að forgangsraða.
Það er okkar, nú sem fyrr, að vega og meta hvernig hyggilegast er að bregðast við.