Fara í efni

ER ÞJÓÐIN TRAUSTSINS VERÐ?


Furðulegar yfirlýsingar berast frá Alþingi um að þingmenn treysti þjóðinni eða treysti henni ekki. Þetta er fullkomlega óinteressant. Í mínum huga kemur þjóðinni ekkert við hvort einstakir þingmenn treysta henni eða ekki. Þjóðin á sig sjálf. Valdið er hennar! Við höfum hins vegar komið okkur upp þingræðisfyrirkomulagi til hagræðingar. Þingmenn mega aldrei gleyma því að þeir eru fyrst og fremst starfsmenn þjóðarinnar - handlangarar en ekki handhafar valds án skilyrða.  

Þingræði til hagræðis

Það gerir sig einfaldlega illa að kjósa dag hvern um mál stór og smá sem auk þess enginn teljandi ágreiningur er um í þjóðfélaginu  - eða þar sem niðurstaðan á þingi endurspeglar merihlutavilja kjósenda.
Ef hins vegar þjóðin vill taka valdið milliliðalaust til sín þá á það að ganga auðveldlega fyrir sig. Eðli máls samkvæmt verður meirihluti þings aldrei sáttur við að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, einfaldlega vegna þess að til hennar er efnt vegna þess að þingið hefur ekki farið að almannavilja.

Ekki þrengja að lýðræðinu!

Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að tiltekið hlutfall kjósenda eigi að geta krafist þjóðartkvæðagreiðslu um einstök mál. Mikilvægt er að koma á virku öruggu undirskriftakerfi íþeim tilgangi. Nú er þessari þörf svarað með málskotsrétti forseta. Svo er að heyra að ýmsir vilji þrengja þann rétt. Ekki er ég í þeim hópi. Sá réttur má alla vega ekki hverfa nema annar og rýmri réttur komi í hans stað. Með öðrum orðum, réttinn til þjóðaratkvæðis þarf að víkka, ekki þrengja. Þegar þetta hefur verið gert - ekki fyrr - er ég til viðræðu um málskotsrétt forseta. Þó verð ég að segja: Því fleiri öryggisventlar þeim mun betra. Og gleymum því aldrei að málið snýst um að vísa ágreiningsefnum til lýðræðislegrar ákvörðunartöku, til þjóðarinnar.

Það sem einu sinni snéri upp...

Einhvern veginn finnst mér tónninn í umræðunni um þjóðaratkvæðagreiðslu á Alþingi ekki vera alveg hreinn. Margir fylgismenn þess réttar frá fyrri tíð hafa gengið af sinni fyrri skoðun. Hörðustu hefðbundnir andstæðingar þjóðaratkvæðagreiðslu tala hins vegar eins og beint lýðræði sé þeirra ær og kýr. Það sem áður sneri upp snýr nú niður - og öfugt.
Menn ræða röksemdir forsetans fyrir synjun staðfestingar á Icesave. Í mínum huga snúast rökin fyrst og fremst um eitt: Er verulegur og sannanlegur vilji fyrir því í þjóðfélaginu að þjóðin taki ákvörðun án milligöngu Alþingis. Ef svo er á skilyrðislaust að lúta þeim vilja. Við núverandi fyrirkomulag er það forsetinn sem leggur á þetta mat. Hann fær undirskriftir í hendur og metur stöðu mála. Þetta fyrirkomulag má ræða - og á að ræða - sem áður segir. En þeir sem harðast tala gegn þessari skipan spyrji sjálfa sig: Var það til ills að vísa Icesave til þjóðarinnar í byrjun árs 2010 með hliðsjón af viðhorfum í þjóðfélaginu þá og hvernig málið stórbatnaði í kjölfarið? Sama gildir nú, tugþúsundir, nær 20% kjósenda hafa krafist þjóðaratkvæðagreiðslu.

Málskotsréttur forseta er ekki vandinn

Vandinn á Íslandi í aðdraganda hrunsins var sá að stöðugt var verið að þröngva upp á þjóðina lausnum og niðurstöðum, án umræðu og án þess að þjóðin væri spurð leyfis beint og milliliðalaust.
Þetta þarf að laga. Þá er ýmislegt brýnna en að þrengja að málskotsrétti forseta Íslands. Ég íterka, því fleiri öryggisventlar, þeim mun betra.
Dæmi um skrif um svipað efni: https://www.ogmundur.is/is/greinar/ferskir-eru-lydraedisvindarnir
https://www.ogmundur.is/is/greinar/lydraedi-eda-forraedi
https://www.ogmundur.is/is/greinar/lydraedi-er-grundvallarrettur
https://www.ogmundur.is/is/greinar/johann-hauksson-og-fadmur-sidmenningarinnar