Á FAGMENNSKA ERFITT UPPDRÁTTAR Á FJÖLMIÐLUM?
Stjórnmálamenn eiga stöðugt að sæta aðhaldi og gagnrýni. Opinberar
stofnanir eiga að láta frá sér heyra þegar þeim þykir óeðlilega að
sér þrengt. Það á við um Landspítalann, Lögregluna og RÚV. Svo er
það okkar stjórnmálamannanna að réttlæta okkar gjörðir eða
leiðrétta kúrsinn eftir atvikum. Þjóðfélag í þrengingum á að loga í
opinni óheftri og gagnrýninni umræðu.
Til þess þurfum við á kröftugum fjölmiðlum að halda.
Fréttamenn þurfa að fá hvatningu til að viðhafa gagnrýnin
vinnubrögð. Það verður ekki gert með því að reka þá sem sýna góða
viðleitni!
Eyjan gerir því skóna að Ingimar Karl Helgason,
fréttamaður á Stöð 2 hafi verið látinn gjalda skoðana sinna þegar
honum var sagt upp störfum fyrir fáeinum dögum. Ég hef ekki heyrt
Stöð 2 andmæla þessu. Ingimar Karl var eftir því sem ég best veit,
vandaður fréttamaður sem kappkostaði að allar hliðar mála
kæmu fram. Sjá http://ordid.eyjan.is/2011/02/09/sagt-upp-vegna-gagnryni/
Lára Hanna
Einarsdóttir var látin hætta sem pistlahöfundur á RÚV.
Skýrningin var ósannfærandi. Henni var gefið að sök að hafa birt
pistla sína á vefritinu smugan.is! Lára Hanna er án efa einn
kröftugasti þjóðfélagsrýnir sem fram hefur komið á vettvangi
fjölmiðla í seinni tíð.
Þórhallur Jósepsson var látinn hætta á RÚV fyrir
þá "sök" að hafa unnið að bók um Árna Mathiesen, fyrrverandi
fjármálaráðherra, samhliða fréttamennskunni. Þórhallur naut trausts
sem vandaður fréttamaður.
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir var látinn taka poka
sinna af Mogga þrátt fyrir kraftmikla fréttamennsku og ótvíræðar
vinsældir.
Ég læt upptalningu lokið þótt áfram gæti ég haldið.
Mér finnst að ritstjórnir á framangreindum fjölmiðlum skuldi okkur
skýringar. Er það tilviljun að gagnrýnir fréttamenn og greinendur
eiga erfitt uppdráttar á íslenskum fjölmiðlum?
Getur verið að fjölmiðlarnir komi til með að reka lestina í
endurnýjun eftir hrun?