TAFLMENNSKAN UM ICESAVE


Sú niðurstaða sem nú liggur fyrir í Icesave er á engan hátt saman að jafna við þá niðurstöðu sem þing og þjóð stóðu frammi fyrir haustið 2009 og var síðan hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr á þessu ári. Munar þar tugum ef ekki hundruðum milljarða.
Hvað veldur þessum mun er eflaust margt. Ég hef aldrei viljað skella skuld á stjórnmálamenn eða fyrri samninganefndir, einfaldlega vegna þess að ég hef séð þetta sem átakasögu þar sem Íslendingar hafa haft hnífinn á barkanum allar götur frá hruni haustið 2008 og þar sem þeir hafa fikrað sig af einni syllu á aðra í viðleitni til að bæta stöðu sína. Og smám saman hefur tekist að bæta hana. Skuldbindingar sem Sjálfstæðismenn og Samfylking gáfu í þáverandi ríkisstjórn haustið 2008 og yfirlýsingar margra hneykslunargjarnra manna, sem nú eru í stjórnarandstöðu, þola ekki mjög skær kastljós. Nema þá í þessu samhengi, að aðstæður buðu ekki auðveldlega upp á góða kosti. Það gera þær vissulega ekki enn þótt staðan hafi stórbatnað.
Þetta breytir að sjálfsögðu ekki því að það skiptir sköpum hvernig stjórnmálmenn halda á málum á hverjum tíma og það var úrslitaatriði að mínu mati að fá okkur til aðstoðar einn færasta samningamann á þessu sviði á heimsvísu: bandaríska lögfræðinginn Lee Bucheit.
Það er ekki á allra vitorði að það var Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður VG,  sem fékk Bucheit að borði. Snemma sumars 2009 kom hann hingað til lands að áeggjan Guðfríðar Lilju og átti hann þá einnig að hennar frumkvæði fund með íslenskum ráðamönnum. Það var þó ekki fyrr en á þessu ári að Bucheit kom inn í samninganefndina, aftur að áeggjan Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur þótt ýmsir aðrir tækju nú undir.
Mat hennar á hæfileikum Bucheits við skákborð þessara erfiðu samninga hygg ég að hafi verið rétt.

Fréttabréf