Fara í efni

SÉRA GUNNAR Á REYNIVÖLLUM: FLÝJUM EKKI SAMTÍMANN!

Gunnar Kristjansson Reyn
Gunnar Kristjansson Reyn

Á jólum hefur kirkjan orðið. Og í dag var það séra Gunnar Kristjánsson á Reynivöllum í Kjós sem talaði til okkar í útvarpsmessu. Fyrst minnist ég séra Gunnars frá upphafi níunda áratugar síðustu aldar, þá nýkominn frá námi í Þýskalandi. Hann hafði skipað sér í framvarðarsveit friðarhreyfingarinnar sem þá hafði hafið á loft baráttu gegn hervæðingaráformum; uppsetningu meðaldrægra kjarnorkuflauga í Evrópu. Álfan logaði í ágengri umræðu um grunngildi samfélagsins; mátt ógnarinnar annars vegar, friðarboðskapar hins vegar, um hvað væri rétt og hvað væri rangt.

Þá sem endranær voru hin áreitnu öfl úthrópuð. Einnig hér á landi. Ég minnist þess að séra Gunnar og baráttufélagar hans fengu á sig eitruð skrif, á meðal annars í  leiðaraskrifum dagblaða. Þetta voru ekki hin viðteknu viðhorf innan valdakerfa og ekki vel séð þar á bæjum.

Nú sem aldrei fyrr þarf Ísland á ágengum siðaboðskap að halda. Þess vegna hlakkaði ég til að hlýða á séra Gunnar í dag. Hann brást ekki. Eins og við var að búast á jóladag var sögusviðið Betlehem í Nasaret þar sem kristin trú boðar að mannkyni hafi verið frelsari fæddur. En í frásögn séra Gunnars var sögusviðið okkur ekki fjarlægt heldur spegilmynd okkar eigin samfélags, „raunar meira en spegilmynd: hér leynist nýr mælikvarði fyrir mannúðlegt samfélag." Sá sem séra Gunnar vitnar hér til er siðbótarmaðurinn Martin Luther, uppreisnarmaður gegn ofríki valdstjórnar.

Martin Luther hafði hugrekki til að rísa gegn valdakerfum og vanahugsun sinnar samtíðar. Þetta er einnig kjarninn í boðskap séra Gunnars, eins og ég skil hann, hvort sem var á tímum hervæðingar í Evrópu í byrjun níunda áratugarins eða í kjölfar efnahagshruns á Íslandi:  Við eigum aldrei að flýja það sem á okkur brennur í samtímanum. Séra Gunnar vill að við speglum okkar eigin samtíð í boðskap kristinnar trúar : „Þetta sakar ekki að hafa í huga einmitt nú þegar svo mjög er leitað að grunngildum samfélagsins, og hin góðu gildi lífsins eru hafin til vegs og virðingar á ný og nýrra leitað. Erum við ekki að upplifa tíma sem einkennast af hugleiðingum um nýjan lífsstíl? Þegar allt skal endurskoðað, lög og reglur fjármálafyrirtækja og opinberrar stjórnsýslu, þegar sjálf stjórnarskráin er á dagskrá og þegar einstaklingurinn horfir í eigin barm með nýjum gleraugum.
Tveir þjóðfundir skrásettu helstu gildi, sem þeir álitu einstaklingum og þjóðinni allri farsælast að hafa í heiðri. Lífsgildalisti þjóðfundanna er í stórum dráttum náskyldur hinum klassísku dyggðum kristins samfélags aldanna, bæði höfuðdyggða og annarra dyggða, það fer ekki framhjá neinum sem til þekkir. Hinar sjö höfuðdyggðir kristninnar: trú, von og kærleikur, viska, hugrekki, réttlæti og hófstilling, sáu aftur dagsins ljós - en þó ekki allar.
Þar er ekki að finna fjórar þeirra. Ekki er minnst á hugrekki; viskuna finn ég ekki, og hvorki er þar vonin né trúin. Þetta er umhugsunarefni. Skyldi vera þarna um léttvæg gildi að ræða sem mættu jafnvel detta út, kynni einhver að spyrja.
Er viskan búin að gegna hlutverki sínu? Má hún þoka fyrir hverfulu þekkingarflæði upplýsingarsamfélagsins frá einum degi til annars? Skyldi hvergi vera boðið upp á visku sem er hafin yfir stopula þekkingu líðandi stundar?
Og hefur hugrekkið orðið fyrir svo miklu gengisfalli í umróti upplifunarsamfélagsins að þess gerist ekki lengur þörf? ... Er ekkert þess virði að berjast fyrir, enginn málstaður sem vekur samvisku mannsins?..."

Hér að neðan birti ég útvarpspredikun sér Gunnars Kirstjánssonar frá í dag.
 

   

 

Jóladagur í Brautarholtskirkju 2010, útvarpsmessa

Textar: Jes 9:1-7;  Lúk 2:1-14.

78: Í dag er glatt í döprum hjörtum; 94: Jesús þú ert vort jólaljós: 563: Þá nýfæddur Jesús; 73: Í Betlehem er barn oss fætt; 82: Heims um ból.

Náð sé með yður og friður.

Jólin ganga í garð þegar jólaguðspjallið hefur verið lesið og við höfum heyrt upphafsorðin: En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústus keisara. Orðin hafa meitlast inn í sögu og reynslu kynslóðanna, þau breyta stund og stað þegar hið hversdagslega umbreytist í heilagan tíma og hátíðin rennur upp.

Jólaguðspjallið vekur vonir mannsins, þrá hans til þess sem gott er, fagurt og satt. Það vekur bæn mannsins um frið á jörðu, frið í fjölskyldum, frið í sál, það vekur vonir um mannúð og réttlæti í samfélaginu og um víða veröld, allt það besta sem býr í sál mannsins vaknar til lífsins um stund.

Við þekkjum sögusviðið. Engin sveitasæla í gömlum og hlýjum torfbæ, enginn jólasnjór og ekkert jólatré, ekkert hangikjöt á borðum. Frásögn Lúkasar af fæðingu Jesúbarnsins hefst í stíl hefðbundinnar skráningar á veraldlegum atburði. Þar er minnst á Ágústus, fjarlægan keisara og á skrásetningu fólks vegna skattlagningar í fjarlægu landi. Tímasetningar og staðaheiti setja svip sinn á knappa frásögn sem lýtur lögmálum hefðbundinnar skýrslu.

Frásagan hefst undir himni valdsins og þokast síðan að fjarlægum áfangastað við jaðar hins mikla heimsveldis: ungt par er á leið til þess að láta skrásetja sig, en hugurinn er hjá barninu sem er að koma heiminn. Sögumaður fylgist með þeim inn í fjárhúsið og víkur síðan sögunni út á vellina þar sem hirðarnir gæta lítillar hjarðar. Frá þeirra sjónarhorni er upphaf jólaguðspjallsins andartakið þegar óvæntur gestur stendur skyndilega fyrir framan þá. Þeir skunda til fjárhússins og eru fyrstir til að heyra jólaboðskapinn og boða fyrstir fæðingu jólabarnsins.

Frásögn Lúkasar minnir óneitanlega á upprisufrásagnir guðspjallanna, þar sem konurnar undrast og óttast líkt og hirðarnir. Þær höfðu farið til að sjá hvað gerst hafði og hlupu svo undrandi og óttaslegnar sem fætur toguðu til að segja öðrum tíðindin. Hirðarnir hafa einnig skynjað hið heilaga andartak við jötuna.

Frásagan spannar hinn stóra pólitíska heim á gullöld Ágústusar. En að baki fagurri ásýnd friðar og réttlætis blasir við umkomulaust og undirokað fólk í afskekktum skattlöndum. Þar ríkja varðhundar valdsins, eins og Heródes konungur, sem óttast barnið í jötunni öllu öðru fremur og svífst einskis þegar hann lætur myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni, tveggja ára og yngri, til að koma í veg fyrir að spádómar Gamla testamentisins um Messías rætist. Messías: sem átti að gera mennina frjálsa og sjálfráða en afnema ríki þess annarlega valds sem kúgaði fólk til hlýðni og undirgefni.

Jólaguðspjall Lúkasar er pólitískur texti, um það blandast engum hugur við fyrsta lestur. Þar takast á valdið í höfuðborg hins forna heims, Rómaborg, og nýtt, óvænt veldi án landamæra, sem á sér fáránlega táknmynd við fyrstu sýn: jötu, sem gefur síst af öllu vald til kynna.

Marteinn Lúther leit þessa frásögn einnig pólitískum augum. Það birtist í því hvernig hann horfir á kjör fátækra, meðal annars í Kirkjupostillunni sem hann skrifaði 1522 í stofufangelsi í Wartburgarkastala. Þá hafði hann nýlega verið bannfærður um aldur og ævi af páfanum og gerður útlægur og réttdræpur af keisaranum. Hann þekkti því skuggahliðar hins veraldlega og trúarlega valds og vissi hvað um var að ræða. En hugrekkið sveik hann ekki. Þvert á móti hitnar honum í hamsi þegar hann hugsar til jólafrásagnar Lúkasar og les hana með líðandi stund fyrir augum. Hann segir: „En að enginn skyldi miskunna sig yfir þessa ungu konu sem er að fæða fyrsta barn sitt, að enginn skyldi koma til hennar, ókunnugrar stúlkunnar sem þekkir ekki til og hefur ekkert við hendina sem fæðandi kona þarf á að halda.

Þau eru alein í myrkrinu, niðdimm nótt, ekkert ljós, enginn eldur - heldur hann áfram. - Enginn býður þeim aðstoð, fólk er heima hjá sér ... og skemmtir sér en enginn veitir þessari konu athygli... Ég reikna ekki með að hún hafi átt von á sér svona fljótt, þá hefði hún áreiðanlega ekki farið frá Nazaret. Ímyndið ykkur hvers konar dulum og sjölum hún hefur vafið um barnið, kannski slæðu eða einhverju sem hún hefur getað verið án sjálf. En varla hefur hún vafið hann í buxurnar af Jósef."

Hugmyndalfugið bregst Lúther ekki við að útmála þessar aðstæður betur og betur um hver jól. Frásögnin er fyrir honum spegilmynd eigin samfélags, raunar meira en spegilmynd: hér leynist nýr mælikvarði fyrir mannúðlegt samfélag. Í Húspostillunni rúmum tveimur áratugum síðar (1544) spyr Lúther, sem þá var orðinn margra barna faðir, á þessa leið: Kom virkilega enginn þessari barnshafandi konu til hjálpar með líndúk og teppi? Hvar voru koddarnir? Var engin aukadýna til í þessu gistihúsi? Og ábreiður? Lokaðar niðri í kistum, kannski? Átti sængurkonan að kvefast eða hvað? Hvers vegna varð þessi fátæka stúlka að láta kyrtil sinn þegar nóg var af kyrtlum í nokkurra metra fjarlægð, en samt í öðrum heimi, þar sem fólkið gerði sér glaðan dag, lifði í vellystingum í dýrindis klæðum? Hvers vegna stóð enginn við hlið föðurins, þessa umkomulausa manns, sem gerði allt sem í hans valdi stóð, þegar hann var inni í gistihúsinu og bað um vatn handa konunni í fjósinu? Þannig útmálar siðbótarmaðurinn smáatriði sögusviðsins. Og þegar hér er komið sögu er honum runnið í skap - enda  hefur hann sína eigin samborgara í huga sem honum fannst ekki alltaf til fyrirmyndar - og lætur þetta flakka: „Þú auma Betlehem, réttast væri að leggja eld að þessu gistihúsi. Því að jafnvel þótt ungfrúin María hefði verið betlandi kona eða óvönduð þá hefði samt átt að hjálpa henni, þjóna henni fúslega og af umhyggju." Þannig las Lúther jólaguðspjallið rétt eins og sagan gerist á hans eigin samtíma.

Og þannig gætum við einnig lesið jólaguðspjallið, það á erindi til samfélagsins nú sem endranær. Fyrir Lúther var jólaguðspjallið ekki ævintýri eða rómantísk frásögn, heldur beindist það að raunveruleikanum sjálfum eins og hann er í þessum heimi. Einmitt þessi saga hafði í hans augum alla burði til að bregða nýju ljósi yfir þennan heim, ein svipmynd var ekki minna virði en allar heimsins athuganir á mannlegu atferli. Í galdri frásögunnar birtist margt eins og í hnotskurn.

Þetta sakar ekki að hafa í huga einmitt nú þegar svo mjög er leitað að grunngildum samfélagsins, og hin góðu gildi lífsins eru hafin til vegs og virðingar á ný og nýrra leitað. Erum við ekki að upplifa tíma sem einkennast af hugleiðingum um nýjan lífsstíl? Þegar allt skal endurskoðað, lög og reglur fjármálafyrirtækja og opinberrar stjórnsýslu, þegar sjálf stjórnarskráin er á dagskrá og þegar einstaklingurinn horfir í eigin barm með nýjum gleraugum.

Tveir þjóðfundir skrásettu helstu gildi, sem þeir álitu einstaklingum og þjóðinni allri farsælast að hafa í heiðri. Lífsgildalisti þjóðfundanna er í stórum dráttum náskyldur hinum klassísku dyggðum kristins samfélags aldanna, bæði höfuðdyggða og annarra dyggða, það fer ekki framhjá neinum sem til þekkir. Hinar sjö höfuðdyggðir kristninnar: trú, von og kærleikur, viska, hugrekki, réttlæti og hófstilling, sáu aftur dagsins ljós - en þó ekki allar.

Þar er ekki að finna fjórar þeirra. Ekki er minnst á hugrekki; viskuna finn ég ekki, og hvorki er þar vonintrúin. Þetta er umhugsunarefni. Skyldi vera þarna um léttvæg gildi að ræða sem mættu jafnvel detta út, kynni einhver að spyrja.

Er viskan búin að gegna hlutverki sínu? Má hún þoka fyrir hverfulu þekkingarflæði upplýsingarsamfélagsins frá einum degi til annars? Skyldi hvergi vera boðið upp á visku sem er hafin yfir stopula þekkingu líðandi stundar?

Og hefur hugrekkið orðið fyrir svo miklu gengisfalli í umróti upplifunarsamfélagsins að þess gerist ekki lengur þörf? Við erum að tala um eina meginuppistöðuna í mannskilningi aldanna. Er ekkert þess virði að berjast fyrir, enginn málstaður sem vekur samvisku mannsins?

Og hófstillingin? Má hún ennþá vera á hliðarlínunni? Skyldi hrunið hafa kennt okkur nægjanlega hófsemi? Af hófseminni leiðir skapandi lífsstíl sem lætur sér annt um lífríki jarðar, um réttlæti í samfélaginu og um mannúð í samskiptum þjóða? Erum við útskrifuð í þeirri dyggð?

Og hvað svo um vonina? Er hún blekking, skyldi bjartsýnin ein nægja til að fleyta afþreyingarsamfélagi nútímans áfram frá degi til dags? En hvað þá um hið djúpa hugtak vonina sem er samofin vitund um tilgang og merkingu? Sem hefur alla tíð gefið manninum þolinmæði og þrautseigju?

Það eru ekki léttvæg orð sem heimspekingurinn Ernst Bloch, reyndar að eigin dómi guðleysingi, ritaði í meistaraverki sínu um vonina í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar að þar sem von væri, þar væri einnig trú. Skyldi það ekki einnig geta átt við um hugrekkið, eitthvað á þessa leið: þar sem hugrekki er þar er trú eða um hófstillinguna: þar sem hófstilling er þar er trú eða um aðrar dyggðir sem hafa reynst manninum dýrmætar í sögu aldanna? Skyldu þær ekki allar eiga sér djúpar rætur, sem má rekja alla leið til innstu vitundar mannsins um eigin tilvist, til þess sem skiptir hann mestu og öllu: til þeirra róta sem gildismat hans nærist af, til trúar hans, þar sem sannfæring hans um tilgang og merkingu lífsins býr?

Barátta Marteins Lúthers og siðbótarmanna gekk út á að benda á þetta: að trúin í hjarta mannsins væri eins konar lykilfyrirbæri í tilvist hans, af henni spretta hin góðu, lífvænlegu gildi fyrir mann og samfélag, hin farsæla breytni, dyggðirnar, vonin og kærleikurinn, hugrekkið og viskan, réttlætið og hófsemdin. Þegar við höfum allt nema kjarna málsins er komið að þeim punkti að við ættum að nema staðar og hugleiða okkar gang og jafnvel efna til þjóðfundar um trú.

Trú var að mati Lúthers og hans manna forsenda fyrir framsæknum og skapandi lífsstíl sem setur mannúðleg gildi í öndvegi og hefur manninn upp til nýrrar virðingar, einnig unga og fátæka parið sem var á leið til Betlehem.

Frásögn Lúkasar á erindi inn í þessa umræðu. Ástæðan fyrir því að frásögn hans hefur átt erindi í tvö þúsund ár og ekkert fallið í gildi er sú að Lúkasi tókst að skrásetja frumsögu vonarinnar. Hún verkar eins og frumtáknið: hún þarf engrar skýringar við og villist ekki á leið sinni beint að hjarta mannsins af því að hún á þangað erindi.

Í verðlaunasýningunni Jesús litli, sem Borgarleikhúsið sýndi fyrir jólin, var mikið hlegið enda fóru trúðarnir á kostum við að koma frásögninni um fæðingu jólabarnsins til skila. En inn á milli féll á djúp þögn þegar slegið var á aðra strengi mannlegra tilfinninga. Var það vegna fyndninnar sem svo dátt var hlegið? Er ekki eitthvað til í því, sem bókmenntamenn fyrri tíma - eins og Göthe - og einnig í nútímanum, hafa haldið fram, að við hlæjum ekki vegna fyndninnar í bókmenntunum heldur vegna sannleikans. Við hlæjum innilega þegar eitthvað snertir okkur og vekur af blundi djúpar tilfinningar, djúpar hugsanir sem bærast dýpst í sál mannsins, um það sem mestu máli skiptir í þessu lífi: „til hvers lifi ég", hvar er mér borgið í tilvist sem virðist ekkert upphaf hafa, ekkert markmið og engan kjarna?

Bandaríska stórskáldið John Cheever sagði að frásögn væri  meira en endursögn á atburði, hún væri hvorki meira né minna en opinberun sem afhjúpar eitthvað innra með manninum sjálfum, og ekki aðeins það, heldur skapar hún jafnframt eitthvað nýtt og hefur í för með sér nýja sýn til lífsins, ný lífsviðhorf í þreyttum heimi hversdagslegs amsturs, nýja von og óvænta, nýtt hugrekki til að lifa, nýja löngun til að láta gott af sér leiða.

Þetta á við um jólafrásögn Lúkasar, hún varðveitir hið heilaga andartak: hið eilífa er komið til móts við manninn, hér á hann stefnumót sem gefur nýjan kraft til að vona og til að trúa. Hér erum við, líkt og hirðarnir, slegin undrun og ótta andspænis frásögn sem nær eina ferðina enn sterkum tökum.

Kierkegaard, danski heimspekingurinn, sagði á sínum tíma að sannleikurinn byggi í huglægri upplifun mannsins, í því sem megnar að breyta sýn hans á eigin tilvist. Þau orð eiga við texta sem opinberar manninum nýtt innsæi inn í eigið líf, nýjan sannleika sem gagntekur hann og breytir sjálfsvitund hans og heimssýn.

Erum við þá ekki eins og María og Jósef með hið nýja og óvænta í okkar höndum, hið eilífa nú þar sem tíminn nemur staðar eitt heilagt andartak og grípur okkur föstum tökum? Er það ekki einmitt við að skoða þessa mynd af hinni litlu fjölskyldu sem kenningar Hönnu Arendt, hins dáða heimspekings um miðja síðustu öld, verða svo trúverðugar að maðurinn sé ekki aðeins á leið til endalokanna, hann eldist og eldist og að lokum sé hann horfinn, hún leggur þessa mynd fæðingarinnar til grundvallar, hann er alltaf að fæðast, hann stendur aftur og aftur á byrjunarreit í lífi sínu, sífellt undrandi og óttasleginn í senn. Og sá sem stendur á byrjunarreit hefur öll sín tækifæri ónotuð, hann hefur í reynd allt í hendi sinni. Við höfum fengið þessa sterku vitund í vegarnesti að vera nánast eins og barnið: hvaðeina sem stuðlar að skapandi lífsstíl og innihaldsríku lífi vekur athygli okkar og eftirvæntingu.

Þannig er ekki aðeins hugsunin: þannig er innsta hugsun mannsins, trú hans, ekki síst sú trú sem á jötuna að fornu tákni.

Trúin felst því ekki í að læra trúarjátningar fyrri tíma eða að framfylgja ákveðnum forskriftum um trúrækni, hún felst ekki í því að horfa aftur í tímann og trúa eins og aðrir trúa eða hafa trúað. Þannig telja margir að trúin sé, en það er fjarri lagi, til þess þarf enginn þarf að lesa lengi í Nýja testamentinu. Upplýst trú er þvert á móti skapandi veruleiki sem kallar á skapandi lífsstíls, hún tekur breytingum og veldur breytingum, hún lætur mótast og mótar sjálf, bæði einstaklinga og samfélag, af henni sprettur lífsviðhorf, siðferði og samviska mannsins. Þetta eðli trúarinnar verður öllum ljóst sem skoða kristna trúarmenningu í sögulegu samhengi, fyrirmyndin er Jesús sjálfur. Trúarhefð kristninnar á að vera skapandi hefð en ekki dauður bókstafur eða dauð form - verði hún slíkum örlögum að bráð þarf hún að horfa í eigin barm.

Trú nútímans er ekki eins og trúarmenningin áður fyrr, fyrir einni öld eða jafnvel ártugum eða árum. Nú er trúin með öðru sniði. Nú á tímum mótast trú mannsins sífellt meira af persónulegri lífsreynslu í daglegu lífi eða vegna lífsmótandi reynslu á ögurstundum. Umræður um trú eru oft kaldhæðnar, ögrandi, þær geta verið ómálaefnalegar en ekki síður upplýstar, alvarlegar, tengdar reynslu mannsins og persónulegum viðhorfum. Trúin kemur sem endranær til dyranna í ýmsum klæðum, stundum í dularklæðum, því að hún er í vaxandi mæli einkamál og sumir segja feimnismál í okkar vestrænu afþreyingarmenningu. Þannig hlýtur hver tími að finna trúnni farveg, um það er saga kristinnar trúarmenningar til vitnis.

Margir velta fyrir sér hvort þeir geti kallað sína eigin trú - svo blandaða efasemdum og óvissu - hvort þeir geti kallað hana trú eða ekki. Siðbótarmenn lögðu áherslu á eitt sem jafnvel lúthersk kristni hefur haft tilhneiginu til að láta rykfalla: að trúin býr í hjarta mannsins, maðurinn er ekki undir trúarlegt vald settur, hann er sjálfur ábyrgur, sjálfur ráðsmaður í sínu lífi, einnig um trú sína. Sérhver maður býr yfir innsæi, sköpunarkrafti, hugmyndaflugi og hlýtur að spyrja trúarheimspekilegra spurninga um eigið líf. Hann er eins og barn sem er að fæðast í þessum heimi, tækifærin eru ótæmandi, möguleikarnir miklir, frelsi hans liggur fyrir fótum hans, lífið er fullt af von sem manninum stendur til boða. Leit hans er fyrir hendi, þrá hans bíður uppfyllingar, þannig er líf mannsins.

En þótt trúin breytist þá breytist sá ekki sem trúin snýst um, Jesús breytist ekki, hann er ávallt hinn sami. Hann er sá sem vitringarnir nálguðust í eftirvæntingu, komnir um langan veg, til þess að gera staðarákvörðun, ekki landfræðilega heldur fyrir líf sitt, merkingu þess og tilgang. Nú var það ekki vitneskjan sem þeir fluttu með sér, eða tæki þeirra og tól til að mæla gang himintungla, nú var það reynsla þeirra og upplifun, hið heilaga nú, hin nýja staðarákvörðun í þessum heimi sem öllu máli skipti. Hin heilaga stund varð vendipunkturinn í lífi þeirra. Nýfætt barnið varð tákn um veruleika sem er ávallt nýr og býr ekki aðeins í draumum og vonum mannsins heldur einnig í Honum sem snerti hjarta mannsins og breytti þessum heimi með nýrri von og með nýju hugrekki til að lifa.

Amen