EITT LÍTIÐ SÝNISHORN AF VEÐRI


Við ákváðum "að láta ykkur fá sýnishorn af veðri" sagði Sigurður Jóhannes Jónsson yfirverkstjóri í þjónustumiðstöð Vegagerðarinnar á Þórshöfn í þann mund sem opnunarathöfn hófst þar sem vegurin um Hófaskarð var formlega opnaður. Ekið hefur verið um veginn frá því síðsumars en ákveðið var að efna til formlegrar athafnar til að fgna langþráðum vegabótum sem auðvelda samgöngur á milli þéttbýliskjarnanna á Kópaskeri, Raufarhöfn og Þórshöfn og sveitanna á svæðinu auk þess sem samgöngur við aðra landshluta verða greiðari. Þannig styttist leiðin frá Þórshöfn til Akureyrar um 50 kílómetra.
"Þetta verður bara lítið sýnishorn", bætti Jóhannes við og sagði vel koma til álita að láta stytta upp að athöfn lokinni! Það gekk eftir. En með þessu voru aðkomumenn minntir á að veður geta verið válynd á þessum slóðum og því mikilvægt að geta reitt sig á góðar vegasamgöngur allan ársins hring.
Efnt var til mikillar hátíðar á Raufarhöfn að athöfn lokinni. Vegamálastjóri ávarpaði samkomuna að venju. Það gerði ég einnig sem samgönguráðherra, Steingrímur J. Sigfússon sem fjármálaráðherra og sem þingmaður kjördæmisins flutti hann kveðju annarra þingmanna. Forveri minn Kristján Möller ávarpaði einnig samkomuna svo og sveitarstjórnarmenn og flutt var skemmtiefni - stórgott!
Umbætur í samgöngumálum eru fólki sem búið hefur við slakar samgöngur mikið fagnaðarefni og er skemmtilegt að verða vitni að því hvernig hátíðahöldin blandast jafnan sögunni og lifandi menningu samtímans. Þar lætur Vegagerðin ekki sitt eftir liggja og á hún og Hreinn Harldsson vegamalastjóri sérstaklega mikinn heiður skilinn fyrir sína framgöngu á þessum hátíðastundum. Grunnstefið er ævinlega hið sama: Virðingin fyrir landinu, samfélaginu og sögunni.
Sjá m.a: http://www.vegagerdin.is/

Fréttabréf