Fara í efni

HERRAKLIPPING Á TRÖLLASKAGA OG FAGNAÐ Á LAUGARVATNI


Stórframkvæmdir í samgöngumálum sem ráðist hefur verið í á undangengnum árum eru nú hver af annarri að komast á lokapunkt og sumum lokið. Hér á síðunni sagði ég nýlega frá opnun Bolungarvíkurganga. Fyrir viku voru svo Héðinsfjarðargöng opnuð með tilheyrandi borðaklippingu. Þar voru mættir á svæðið fjórir fyrrverandi samgönguráðherrar þannig að alls vorum við þarna fimm talsins sem gegnt höfum embætti samgönguráðherra. Ekki nóg með það, tveir fyrrverandi vegamálastjórar voru komnir til að fagna verklokum.

Við vorum sammála um það,ég og vegamálastjóri, að fá forvera okkar til að raða sér á borðann við þessa athöfn ásamt okkur, til að undirstrika hve margir hefðu komið að þessu verki úr stjórnmálunum og frá framkvæmdahliðinni. Þetta var hugsað sem táknrænt af okkar hálfu. Aðrir sáu annað táknrænt við atburðinn, nefnilega hina karllægu aðkomu að formlegheitunum, og þar með stjórn samgöngumála í landinu. Við borðann var tæpt tonn af körlum en engin kona! Mun þessi borðaklipping nú ganga undir heitinu herraklippingin!

Við opnun vegarins yfir Lyngdalsheiði á föstudag léði ráðuneytisstjórinn í samgönguráðuneytinu athöfninni hins vegar kvenlegra yfirbragð.

Allar þessar athafnir, ræðuhöld og listrænir viðburðir  í tengslum við þær, hafa sýnt fram á tvennt: Annars vegar, hve mikið fólk á landsbyggðinni leggur upp úr samgöngubótum. Ánægjan og fögnuðurinn er ósvikinn. Hins vegar færði þetta mér heim sanninn um hve mikinn menningarlegan sprengikraft er að finna í byggðum landsins. Menningarviðburðir sem efnt var til með mjög breiðri þátttöku fólks í Bolungarvík og á Ísafirði og svo síðar á Siglufirði og Ólafsfirði bera þessu vott.

Á Laugarvatni var mættur Guðni Ágústsson, foringinn úr Framsóknarflokknum. Ég óskaði Guðna til hamingju og minnti hann á að sem frumkvöðull á Alþingi að þessum vegabótum og brúarsmíði yfir Hvítá við Bræðratungu hlyti hann nú að fagna. Nú væri Lyngdalsheiðin frá og borðaklipping við Bræðratungu innan tíðar. Mikið rétt sagði Guðni , en þú átt eftir Reykjaveg yfir Torfastaðaheiði. Hún var einnig í Þingsályktunartillögu okkar Eggerts Haukdal. Þú ert ekki laus allra mála vinur sæll! Frá þessu sagði ég í ræðu. Ég hafði varla sleppt orðinu þegar viðstaddir klöppuðu. Það er greinilegt að Íslendingar ætla ekki að leggja árar í bát!
Sjá nánar: http://www.vegagerdin.is/upplysingar-og-utgafa/frettir/nr/2459