TIL FYRIRMYNDAR Á NORÐURSLÓÐUM

NORDURSLODIR

Við erum rúmlega þrjú hundruð þúsund talsins - Íslendingar. Við höfum ekki ótakmörkuð fjárráð - allra síst á samdráttartímum. Þess vegna þurfum við að ráðstafa fjármunum á mjög markvissan hátt. Það á ekki síst við í alþjóðasamstarfi.  Þar þarf að hugsa um samspil menntunar og rannsókna annars vegar og hagsmuna hins vegar. Framlag Íslands á sviði hafréttarmála er gott dæmi um hvar vel hefur tekist til hvað þetta samspil snertir.

Hvert eigum við að beina kröftum okkar á alþjóðavísu? 1) Við getum lagt heilmikið af mörkum á sviði orku og vatnsmála - sem vísindafólk, rannsakendur og tæknifólk (en ekki sem fjárfestar, það var hinn stóri misskilningur í Stóru-Bólu).2) Við getum lagt af mörkum á ýmsum sviðum heilbrigðismála. 3) Við getum einbeitt okkur að öllu því sem snertir hafið - lífríkið og nýtingu þess, lögum  og reglum sem að því lúta og þá sérstaklega á norðurslóðum -Þar sem við eigum heima!

Í þessu samhengi þykir mér til fyrirmyndar sú áhersla sem Háskólinn á Akureyri leggur á rannsóknir  í norðurslóðafræðum. Hvers vegna? Jú, vegna þess að Ísland er á norðurslóðum, norðurslóðir eru að fá aukna þýðingu á hinu stórpólitíska heimskorti - og síðast en ekki síst það er skynsamlegt  að við sérhæfum okkur í málum sem við höfum forsendur til að geta gert mjög vel. Og því sýnist mér Háskólinn á Akureyri markvisst stefna hvað varðar norðurslóðafræði.

Síðan 1998 hefur stofnun Vilhjálms Stefánssonar verið starfandi innan vébanda háskólans. Stofnuninni er ætlað "innlent og alþjóðlegt hlutverk viðvíkjandi rannsóknum, upplýsingamiðlun, ráðgjöf og samvinnu á sviði sjálfbærrar þróunar og umhverfismála á norðurslóðum. Verkefni stofnunarinnar tengjast í áherslu á þverfaglega og fjölþjóðlega umfjöllun um fræðilegar og hagnýtar lausnir á viðfangsefnum sem sérstaklega tengjast norðurslóðum." sjá nánar: http://www.svs.is/umsvs.htm

Lagadeild Hákólans á Akureyri skipuleggur sig markvisst með norðurslóðafræði í huga. Undir forystu Ágústar Þórs Árnasonar er nú boðið upp á menntun á þessu sviði og er leitað til færustu sérfræðinga sem völ er á og koma þeir margir hverjir sem gestakennarar til að kenna á sínu sérsviði. Þess má geta að í þessum hópi er Guðmundur Alfreðsson, sem nýtur alþjóðlegrar viðurkennigar sem einn fremsti fræðimaður í á þessu sviði.

Ástæðan fyrir þessum skrifum er nýleg heimsókn utanríkismálanefndar Alþingis til þess að kynna sér norðurslóðastarfið innan Háskólans á Akureyri. Gaman var að finna hinn þverpólitíska skilning í nefndinni á því að þarna væru menn á réttri leið. http://www.polarlaw.is/

Fréttabréf