Fara í efni

ÞEGAR SIÐSAMLEGRI UMRÆÐU LÝKUR


Mikil viðbrögð hafa orðið við blaðagrein eftir mig sem birtist í Morgunblaðinu síðastliðinn fimmtudag. Þar lagði ég út af orðum forseta framkvæmdanefndar Evrópusambandsins, Hermans Van Rompuy, í sama blaði 7. maí síðastliðinn.
Setti hann þar fram gamalkunna kenningu um að í burðarliðnum væri evrópskt stórríki sem kæmi til með að heyja harðvítuga baráttu í samkeppni við önnur viðskiptaveldi í heiminum. Þar innanbúðar ætti  Ísland heima, enda ættu allir Evrópumenn „arfleifð" og „forréttindi" að verja. 
Sem andstæðingur inngöngu Íslands í ESB er ég orðinn vanur því að vera borið á brýn einangrunarhyggja  og þjóðremba einsog það er kallað. Ég sagði í grein minni að slíkum aðdróttunum hlyti að linna á meðan boðskapur af þessu tagi væri borinn á borð í Brussel. Ég vísaði til nýlendutímans, yfirgangs Evrópuríkja fyrr á tíð og kröfur  um áhrif og athafnarými nú. „Lífsrými" var hugtak sem ég notaði nánast í framhjáhlaupi ( sjá grein mína: https://www.ogmundur.is/is/greinar/virkisturn-i-nordri) um stórveldafrekju nýlendutímans en það er hugtak sem nasistum var tamt að nota á fjórða áratug síuðustu aldar um landakröfur austur á bóginn. Og þar sem ég nefndi einnig aðra kunna vísan frá þessu tímaskeiði um Virkið í norðri þá hlaut ég að vera að halda því fram að samasemmerki væri á milli Evrópusambandsins og nasisma, væntanlega með útrýmingarherferðum í Austur-Evrópu, ofsóknum, gasofnum og kynþáttahyggju!
Auðvitað vakti ekkert slíkt fyrir mér og mig grunar að enginn trúi því raunverulega. En þarna var tækifæri til að afvegaleiða umræðuna, nokkuð sem ótrúlegustu menn nýttu sér, með Egil Helgason, fjölmiðlamann, í broddi fylkingar.
Mér þótti hins vegar gott að sjá útleggingu Birnu hér á síðunni í lesendabréfi þar sem hún segir meðal annars: „Sjálf er ég ekki Evrópusinni aðallega vegna þess að ég er ekki heimsvaldasinni. Ég hef ekki trú á því að ríkar Evrópuþjóðir eigi að rotta sig saman í viðskiptalegum hagsmunamúr og beita stofnunum eins og Alþjóðaviðskiptastofnuninni og öðrum viðlíka til að halda fátækari hluta heimsins fátækum. Íslenskir Evrópusinnar eru þó flestir meira fyrir að lýsa ESB sem friðarbandalagi en líta framhjá því að þetta er eðlilegt framhald nýlendustefnunnar þar sem innflutningur frá fyrrum nýlendum er tollaður hátt ef um er að ræða unnar vörur, en framleiðsla sambandsins er niðurgreidd til útflutnings til sömu svæða. Að sjálfsögðu getur alþjóðlegt samstarf verið göfugt og gott en það þarf ekki að vera það. Það er einmitt það sem grein Rompuys frá í vor sannar. Þar setti hann nokkuð afdráttarlaust að heiminum er skipt upp í flokkana „við" og „hinir" (eins og þú bentir á í þinni grein) þar sem „við" stefnum að því að vera rík forréttindastétt..."
Þetta er réttur skilningur á því sem ég var að segja í umræddri Morgunblaðsgrein.
Menn geta verið sammála mér og Birnu eftir atvikum á málefnalegum forsendum. Við það hef ég að sjálfsögðu ekkert að athuga. En öðru máli gegnir þegar reynt er að gera skrifin tortryggileg á forsendum gamalkunnrar formúlu: Reductio ad Hitlerum einsog Egill Helgason gerir. Hann skýrir formúluna út fyrir okkur á þann veg „... að siðsamlegum rökræðum ljúki þega menn fara að bera andstæðinga sína saman við nasista."
En hvað er hann sjálfur að gera gagnvart þeim sem þetta ritar? Að ekki sé minnst á þá sem síðan stökkva upp í vagn hans, sveia þar og formæla, tala um illt innræti og rægitungur, en hafa ekkert málefnalegt til umræðunnar að leggja. Þessi reynsla kennir mér hvað við er átt þegar sagt er að siðsamlegri rökræðu ljúki.