Fara í efni

ÍSLAND ER EKKI TIL SÖLU!

Á menningardag/nótt er efnt til dagskrár við gamla Hegningarhúsið á Skólavörðustígnum í Reykjavík. Það eru samtökin Attac á Íslandi sem fyrir þessu standa. Þarna gefst fólki kostur á að skrá nafn sitt undir áskorun sem nokkrir valinkunnir einstaklingar hafa staðið fyrir, þeirra á meðal Björk, Oddný Eir Ævarsdóttir og Jón Þórisson. Þetta er einnig hægt að gera rafrænt á þessari slóð: http://orkuaudlindir.is/ 
Ákorunin er svohljóðandi: Ég undirrituð/undirritaður skora á stjórnvöld að koma í veg fyrir söluna á HS Orku og skora jafnframt á Alþingi að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindum Íslands og nýtingu þeirra.
Frá dagskránni segir á Smugunni sem mér sýnist ætla að verða næmari á grasrótina en flestir aðrir fjölmiðlar. Ekki veitir af að hlustað sé eftir röddum sem víðast að úr þjóðfélaginu.
Ég leit við á Skólavörðustígnum um miðjan dag og lét fyrir bera við gamla Steininn um stund til að sýna þessu framtaki stuðning og aðstandendum virðingu mína. Því miður heyrði ég aðeins lítið brot dagskrárinnar sem er hreint frábær. Hér er slóð á Smuguna sem segir nánar frá henni: http://www.smugan.is/frettir/nr/3754