AUGLÝSING?


Hvers vegna skyldi ég birta þassa mynd, sem tekin er við höfnina í Reykjavík á góðviðrisdegi? Ég birti hana til að vekja athygli á því iðandi lífi sem þarna er að skapast með veitingahúsum, kaffistöðum og listviðburðum.
Um daginn fékk ég mér dýrindis síld á útiveitingastað við Geirsgötuna og fór að því loknu að horfa á stórgóða mynd Valdimars Leifssonar, kvikmyndagerðarmanns, í litlum sal fyrir ofan kaffistaðinn Haiti, um eldgosið í Eyjafjallajökli. Ég var þarna á ferð með íslenskum vini mínum og höfðum við báðir mikla ánægju af. Ef ég hefði verið með erlenda gesti á ferð hefði ég gert nákvæmlega þetta, borðað við höfnina og sýnt þeim dramtískar myndir af nýafstöðnu eldgosi!
Valdimar Leifsson sagði okkur að þeim færi fjölgandi sem legðu leið sína til sín, annað hvort á kvikmyndasýningu eða til að njóta smákonserta sem hann stofnaði til. Salurinn væri og til útleigu.
Og þá aftur að spurningunni: Er þetta auglýsing? Já. Mér finnst ástæða til að svona starfsemi lifi. Alla vega má hún ekki deyja drottni sínum vegna þess að fólk viti ekki af henni fyrr en um seinan. Matsölu- og listalíf við höfnina finnst mér að eigi að þróast nákvæmlega svona. Nýta gömul hús og gæða þau lífi í stað þess að ryðja hverfið fyrir risavöxnum marmaraturnum - steindauðum. Nóg komið að þeim. Látum margbreytileikann blómstra!
  

Fréttabréf