Fara í efni

AÐ HUGSA FYRST OG TALA SVO


Í gær sló fréttastofa RÚV því upp að meirihluti Alþingis myndi leggjast gegn öllum áformum um að koma þurfandi bönkum til aðstoðar ef tillögur kæmu fram um slíkt. Heimildin var Bloomberg fréttaveitan og hafði fréttastofa RÚV ekki fyrir því að grafast fyrir um nánari skýringar af hálfu þeirra þingmanna VG sem sagðir voru á sama báti og stjórnarandstaðan í þessu máli. Hins vegar var með kvöldinu leitað til formanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þar sem þeir skýrðu hvað byggi að baki afstöðu þeirra. Fram kom að málið var ekki eins einfalt og það hafði verið sett fram og þar með misvísandi. Ekki var þetta gert gagnvart okkur hinum og um miðnættið buldi óbreytt fréttin í fréttatímum RÚV. Pressan.is sýndi málinu hins vegar áhuga og sömuleiðis Fréttblaðið eftir að ég hafði gert grein fyrir málavöxtum á eigin heimasíðu: https://www.ogmundur.is/is/greinar/thurfum-bankakerfi-sem-haegt-er-ad-treysta-a Sjá pressan.is í gær: (http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/thingmadur-hver-krona-sem-fer-i-bankakerfid-thyrfti-frekar-ad-komast-i-hendur-landspitalans ).
Nú bregður svo við að þrátt fyrir útskýringar mínar, sem ég hygg að séu dæmigerðar fyrir aðra félaga mína í VG sem vilja ítrustu varfærni hvað varðar frekari fjárútlát til fjármálakerfisins úr vösum skattborgara, leitar pressan.is  í dag álits hjá Þórólfi Matthíassyni, háskólakennara í hagfræði, um afstöðu okkar. Án þess að kynna sér málið frekar kveður Þórólfur upp stóradóm yfir okkur: þau ættu að temja sér að hugsa áður en þau tala."
http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/hagfraedingur-vegna-bankastodu-stjornarthingmenn-aettu-ad-temja-ser-ad-hugsa-adur-en-their-tala
Engar kröfur á ég á hendur Þórólfi Matthíassyni. En kannski má biðja um ögn meiri yfirvegun af hans hálfu; að hann geri það sem hann leggur til gagnvart öðrum: Hugsi áður en hann talar.