Fara í efni

EINU SINNI VAR KANADAMAÐUR OG SVO KOMU KÍNVERJAR...


Fyrir ekki svo ýkja löngu seldi ríkið hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja. Bara einkaaðilar máttu kaupa. Og þeir keyptu. Nú eru þeir sumir í rannsókn vegna bankaráns og þjóðargjaldþrots.  Virðist engu máli skipta. Áfram var haldið að selja almannahluti í Hitaveitu Suðurnesja sem nú heitir HS orka. Nú var það fyrirtæki á vegum Ross nokkurs Beaty, Kanadamanns. Fyrirtækið, Magma Energy, á heimilsfesti í skrifboðsskúffu í Svíþjóð. Hvers vegna? Til að eiga heima á innra markaði EES. Málamyndaheimilsfang náttúrlega en hlutaðeigandi yfirvöld létu það gott heita. Ekkert mál fyrir sjálfstæðismenn í Reykjavík sem seldu Ross hlut borgarbúa í HS orku - á kúluláni. Hann er svo ágætur hann Ross. Það finnst alla vega Kínverjum. Í Kína er hann á kafi í samningum um orku, sjá t.d. hér: http://www.theaureport.com/pub/na/3551
Leiðir Ross og Kínverjanna liggja víðar saman en þar austurfrá. Báðir aðilar hafa nú lýst áhuga á uppsveitum Árnessýslu. Ross hefur gert samkomulag við Hrunamannahrepp um  rannsóknir á jarðvarma „frá Flúðum upp í Kerlingafjöll". Litlu sunnar og austar streymir Þjórsáin. Kínverjarnir sem komu hingað í síðustu viku í nokkrum flugvélaförmum nefndu með nafni virkjanirnar í neðri Þjórsá sem þeir vilja fjármagna. Þessar virkjanir eiga vissulega tilveru í óskhyggju margra, en ekkert ákveðið. Það skipti hina kínversku gesti engu máli. Erlent auðvald veit að aðvelt er að eiga við íslensk stjórnvöld. Óhugnanlega auðvelt. Allt falt.
Við verðum að fara að skilja að þótt Ross sé Kanadamaður og Kínverjar séu Kínverjar þá fara þeir ekki fram í krafti þjóðernis síns og samfélags heldur einvörðungu forræðisyfirráða og gróðahagsmuna. Íslendingar eiga hins vegar að fara fram í nafni íslenskra þjóðarhagsmuna, íslensk stjórnvöld eiga að gæta almannahags á Íslandi.
Hvað varðar orkuna á Suðurnesjum brugðust stjórnvöld - á sveitarstjórnarstigi og í ríkisstjórn .
Nú virðist sagan vera að endurtaka sig annars staðar. Það má ekki verða. Þetta verður að stöðva og jafnframt verður að vinda ofan af fyrri mistökum.
https://www.ogmundur.is/is/greinar/rannsokn-strax-loggjof-strax
https://www.ogmundur.is/is/greinar/misskildir-kraftaverkamenn