Fara í efni

EF SKIPT VÆRI UM FORRIT...


Í upphafi skipar fólk sér í stjórnmálaflokka og fylkingar vegna hugsjóna og baráttumarkmiða. Síðan taka hefðir og tregðulögmál við. Því miður. Fólk á ekki að halda tryggð við flokk ef hugsjónirnar stangast á við flokksstefnuna. Ógagnrýnin fylgispekt við stofnanir og flokka slævir sjálfstæða hugsun. Hrunið má rekja til slíks sljóleika. Ástæðan fyrir mismunandi stjórnmálaflokkum á að vera sú ein að hugsjónir fólks eru mismunandi.

Við höfum ekki öll sömu sýn á samfélagið; hvernig það verði best skipulagt. Þetta er gott og heilbrigt - og lýðræðislegt. Reyndar veltur lýðræðið ekki bara á margbreytileika flokka - þeir eru fyrst og fremst spegill á viðhorfin í þjóðfélaginu - lýðræðið veltur á því hvernig við högum ákvarðanatöku um sameiginleg málefni, hvort við leitum allra ráða til að tryggja og styrkja frelsi hvers og eins, að við sem einstaklingar og samfélag ráðum okkur sjálf einsog framast er kostur.

En eitt er ágreiningur um  stefnumarkmið, annað ágreiningur um tæknileg úrlausnarefni. Lenskan hefur verið sú að stjórn og stjórnarandstaða á Alþingi geri engan greinarmun á þessu tvennu. Stjórnarþingmenn hafa verið meðmæltir öllu sem komið hefur frá framkvæmdavaldinu, stjórnarandstaðan á móti. Þetta þarf að breytast - og - er að breytast. Smám samam. Það má tvímælalaust merkja í nefndarstarfi á Alþingi. Það hefði verið til góðs að þessi breyting hefði átt sér stað fyrr. Ef taka hefði mátt eina hugsun úr heilaforriti hvers þingmanns, nefnilega vitneskjuna um hvaða stjórnmálaflokki hann tilheyrði, þá hefði margt orðið öðru vísi á Ísalandi:  Hugsjónir og stefnumál skýr og eðlilegur ágreinnigur og átök þar um, tæknileg úrlausnarefni hins vegar sameiginlegt verkefni óháð flokkslínum. Þannig verður framtíðin. Vonandi.