Fara í efni

VERÐMÆTUR MAÐUR


Ríkisútvarpið er ekki bara útvarpsstöð. Ríkisútvarpið hefur allar götur frá upphafi verið ein mikilvægasta menningarstofnun landsins. Og þannig viljum við hafa það, við viljum menningarútvarp.
Á páskum og öðrum stórhátíðum hefur Ríkisútvarpið sýnt best hvað í því býr. Þá hefur dagskrárefnið oftar en ekki verið á dýptina. Á slíkum stundum er oft boðið upp á gamalt eðalefni. Af því er mikið til í kistum Ríkisútvarpsins. Sannkallaðir menningarfjársjóðir. En það er ekki nóg að búa yfir vönduðu efni frá fyrri tíð. Framleiðsla á gæðaefni þarf að vera stöðug. Ríkisútvarpið þarf stöðugt að veita menningu samtímans út til þjóðarinnar. Svo er það hitt, að ef dagskrárgerðin gengi út á það eitt að finna gott en gamalt þá er hætt við stöðnun; að áhöfnin á fleyinu hætti að geta fundið ný mið. Í menningarútvarpi sem rís undir nafni rennur fortíð og samtíð saman í eitt.
En það þarf þekkingu og  góða dómgreind  til að flétta saman gamalt og nýtt svo vel sé; spinna úr því nýjan þráð. Það kann Gunnar Stefánsson, íslenskufræðingur og dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu um áratugaskeið,  flestum mönnum betur.  Það hefur ómetanlegt gildi fyrir okkur hlustendur Ríkisútvarpsins að menn á borð við Gunnar Stefánsson skuli vera þar í starfi. Flestum mönnum fremur ber hann uppi merki menningarútvarpsins, frjór í hugsun, vel máli farinn, næmur á samtíð sína en þekkir jafnframt í þaula menningu fyrri tíðar. Það sem meira er: Hann kann að nýta þetta allt saman - og í okkar þágu. Slíkur maður er okkur verðmætur.