Fara í efni

ÞEGAR MENN RÍSA Á FÆTUR


Opin umræða um Icesave er þegar farin að skila árangri. Ferillinn, sem  málið fór inn í við ákvörðun forseta Íslands um að vísa málinu til þjóðarinnar að kröfu fjórðungs kosningabærra manna í landinu, hefur orðið til góðs. Á því leikur enginn vafi. Hér á síðunni hef ég tekið  nokkur dæmi um hvernig opin umræða á vettvangi Norðurlandaráðs, í  norrænum og evrópskum stjórnmálaflokknum, í Evrópuráðinu, á vettvangi fjölmiðlanna, hefur þokað okkur áfram, af hnjánum og upp á fæturna. 
Margir hafa látið að sér kveða í þessari umræðu og kemur nafn Evu Joly  alltaf strax upp í hugann þegar þessi mál eru gaumgæfð. Gagnrýni forseta Íslands, nú síðast í garð Norðurlandanna, hefur hreyft við 
valdakerfinu á jákvæðan hátt og yfirlýsingar Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, nú síðustu dagana hafa verið úr munni manns sem stendur uppréttur.
Árangurinn er smám saman að koma í ljós. Sinnaskipti virðast þannig vera að eiga sér stað í norksu ríkisstjórninni. Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, hefur nú lýst því yfir að Norðmenn séu tilbúnir að fjalla um efnahagsáætlun AGS og Íslands óháð Icesave-deilunni. Það er meðal annars fyrir orð norsks almennings sem lætur sig örlög okkar, frændþjóðarinnar, miklu varða.
Svíar búa hins vegar undir Íhaldsstjórn sem hefur stillt sér upp með fjármagninu - kannski í og með vegna þess að sænskir fjármálabraskarar eru með krumlurnar um hálsin á Eystrasaltsríkjunum og vilja engin fordæmi um eftirgjöf fjármálahagsmuna.
Það var gleðilegt að utanríkisráherra lét ekki ósvarað aðdróttunum sænska fjármálaráherrans um að Íslendingar væru að hlaupast undan skuldbindingum sínum. Svipað tal heyrðist í Hollandi en þar vísaði þarlendur ráðherra í einhverjar óskilgreindar alþjóðlegar skuldbindingar. Þetta þurfa fréttastofurnar að kanna nánar og láta menn svara fyrir. Það er svo okkar norðurslóðakarla og kvenna að velta því fyrir okkur af hverju það eru einmitt þjóðirnar í Færeyjum og Noregi sem standa með okkur og láta sig framtíð okkar varða. Fjárhagsstuðningur er vissulega mikilsverður en ekki er hin almenna velvild síðri. Hjálparhönd verður ekki metin til fjár þegar menn eru aðþrengdir og í nauðvörn. Höfum það hugfast.