GUÐFRÍÐUR LILJA UM EVU JOLY: TIL SANNINDA UM GÓÐAN ÁSETNING ÍSLENDINGA!


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður VG, skrifar athyglisverða grein í Fréttablaðið í gær þar sem hún skýrir hvers vegna hún telji vera komna upp nýja og betri stöðu í Icesave. Málið hafi verið komið í blindgötu á Alþingi. Þar hefði ekki verið frekari framfaraskrefa að vænta. Guðfríður Lilja fagnar því að málið sé nú komið í lýðræðilsegan farveg þjóðaratkvæðagreiðslu enda studdi hún tillögu þess efnis á Alþingi.
Í greininni bendir hún á þá lykilstöðu sem Eva Joly hafi gegnt í viðureign Íslendinga við erlend hagsumaöfl sem að okkur sækja og hversu þakkarvert hennar framlag hafi verið málstað Íslands til styrktar. Um aðkomu Evu Joly segir:

"Inegg Evu Joly er mikilvægt af ýmsum ástæðum. Vægi málflutnings hennar liggur þó ekki síst í því að hún er virtur ráðgefandi í rannsókn fjársvikamála - og er nú í liði með íslenskum almenningi að krefjast sannleikans. Þetta hefur afgerandi þýðingu. Þessi tenging endurspeglar þann ásetning þorra almennings að vilja grafast fyrir um orsakir hrunsins, finna þá sem brutu lög og reglur og skutu fjármunum undan. Umheimurinn verður að vita fyrir víst að við erum staðráðin í að ná í stolna fjármuni og láta þá ganga til þeirra sem hafa verið hlunnfarnir. Rannsókn hrunsins og endurheimt undanskotinna fjármuna annars vegar, og samningar við erlend ríki og uppgjör vegna hrunsins hins vegar, er órjúfanleg heild. Aðkoma Evu Joly er til sanninda um góðan ásetning hvað þetta snertir."

-------------------

Grein GLG í Fréttablaðinu:

NÝ OG BETRI STAÐA Í ICESAVE

Icesave málið er nú komið í nýjan farveg. Aftur. Eftir margra mánaða karp í blindgötu á þingi var það sett í farveg þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er mikill misskilningur að líta svo á að það sé verk eins manns, forseta Íslands. Þetta gerðu sextíu þúsund kjósendur með undirskrift sinni,um fjórðungur atkvæðisbærs fólks í landinu. Þegar slík krafa kemur fram - svo afdráttarlaus lýðræðislegur vilji - þá ætti sá vilji að mínu mati sjálfkrafa að ná fram að ganga án milligöngu forsetambættisins. Það er okkar á Alþingi að breyta lögum og stjórnarskrá í þá veru. Slíkt væri í samræmi við stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.
Það er gleðilegt að nú kunni að vera að skapast sú staða sem við mörg hver börðumst fyrir á þingi í allt sumar: Þverpólitísk aðkoma að þessu máli og markvissari kynning á málstað Íslands utan landsteinanna. Það munaði litlu sl. sumar að tækist að skapa þær forsendur en því miður brast samstaðan á lokametrunum og skilaði sér ekki í lokaatkvæðagreiðslu um málið. Ef niðurstaðan hefði orðið 63:0 hefði þingið verið í sterkari stöðu. Allir flokkar komu þó að gerð fyrirvara og var það mjög til góðs.

Gagnsæið er nauðsynlegt

Sú leyndarhyggja sem hefur verið fylgifiskur þessa máls frá hruni hefur verið okkur fjötur um fót. Enda sýnir það sig að þegar málið kemst í almenna opna umræðu hér sem erlendis þá breytist margt. Þeim fjölgar sem fram koma á sjónarsviðið til að taka upp hanskann fyrir Ísland. Má þar nefna evrópska þingmenn, m.a. úr hópi þeirra sem komu að smíði reglugerða um innlánstryggingar og norræna þingmenn sem sífellt fleiri vilja hjálpa til. Velviljinn fer vaxandi eftir því sem fólk gerir sér betur grein fyrir því hvernig í pottinn er búið. Sjálf hef ég orðið vitni að hugarfarsbreytingunni, nú síðast á fundi með systurflokkum VG á Norðurlöndunum. Þá hef ég haft spurnir af því að norrænir þingmenn á Evrópuþinginu sem nýlega sátu fund með Evu Joly hafi nú gerbreytta afstöðu til málsins. Þáttur Evu Joly verður seint fullþakkaður.

Eva Joly í lykilhlutverki

Innlegg Evu Joly er mikilvægt af ýmsum ástæðum. Vægi málflutnings hennar liggur þó ekki síst í því að hún er virtur ráðgefandi í rannsókn fjársvikamála - og er nú í liði með íslenskum almenningi að krefjast sannleikans. Þetta hefur afgerandi þýðingu. Þessi tenging endurspeglar þann ásetning þorra almennings að vilja grafast fyrir um orsakir hrunsins, finna þá sem brutu lög og reglur og skutu fjármunum undan. Umheimurinn verður að vita fyrir víst að við erum staðráðin í að ná í stolna fjármuni og láta þá ganga til þeirra sem hafa verið hlunnfarnir. Rannsókn hrunsins og endurheimt undanskotinna fjármuna annars vegar, og samningar við erlend ríki og uppgjör vegna hrunsins hins vegar, er órjúfanleg heild. Aðkoma Evu Joly er til sanninda um góðan ásetning hvað þetta snertir.

Horfum fram á við

Utanaðkomandi aðilar hafa nú verið fengnir til ráðgjafar í Icesave deilunni með Bandaríkjamanninn Lee Buchheit í broddi fylkingar. Frekari utanaðakomandi ráðgjöf er löngu tímabær. Það er nefnilega þörf á nýrri hugsun, nýrri nálgun. Nú má enginn festa sig í gömlu fari. Það er ekki aðeins þörf á nýrri aðkomu heldur er sú krafa gerð til okkar allra að við hefjum okkur yfir það sem liðið er og nýtum þau sóknarfæri sem óneitanlega hafa skapast vegna umrótsins sem lýðræðiskrafan hefur vakið. Það er okkar allra að fara fram á það sama og þorri almennings erlendis kallar nú á í baráttu sinni við alþjóðleg fjármagnsöfl, öfl sem ætla sér hvað sem það kostar að endurreisa sama spillta gróðakerfið - slíkt er ekki séríslenskt fyrirbæri heldur alþjóðlegt. Almenningur víða um heim kallar á réttindi fólks í stað fjármagns og heimtar að alþýða fólks sé hætt að láta eilíflega borga brúsann fyrir óréttlætið. Sanngirni er krafan. Það er einmitt það sem á sér nú mun víðar hljómgrunn erlendis í erfiðri stöðu Íslands - krafan um sanngirni, líka fyrir íslenskan almenning.

Fréttabréf