Fara í efni

EINKAVINAVÆÐING BANKANNA MUN ALDREI FYRNAST


Í umræðunum um lög um Rannsóknarnefndina sem kannar aðdraganda bankahrunsins var rætt um verksvið nefndarinnar. Minnti ég þá á það að þegar nefndin tæki til starfa þyrfti hún að horfa til umræðunnar á Alþingi um lögin því hún endurspeglaði vilja þingsins. Um þetta efni sagði ég eftirfarandi: „..þegar litið er til lagasetningar þá horfa menn iðulega til umræðu sem fram fer um frumvörp sem lögskýringargagna...."
Í umræðunni tiltók ég nokkra þætti sem ég taldi skipta höfuðmáli að rannsaka og kvaðst líta svo á að „ sé því ekki mótmælt hér við umræðuna, að það sé jafnframt skilningur flutningsmanna, að það þurfi að kanna aðdraganda bankahrunsins allar götur frá því að fjármálastofnanir landsins voru gerðar að hlutafélögum og síðan seldar, aðkomu stjórnmálanna, samspil viðskipta og stjórnmála, þ.e. að horft verði til þeirra ásakana sem uppi voru innan þings og utan og að þeim álitamálum sem ekki hefur verið svarað verði svarað í þessari skýrslu. Í annan stað hlýtur rannsóknin að snúa að stjórnmálunum, að Alþingi, ekki bara stjórn heldur einnig stjórnarandstöðu. Nauðsynlegt er að spyrja um hvað var gert og hvað var ekki gert, hvaða lög og reglur voru settar, hvaða tillögur voru hunsaðar. Það þarf að horfa til framkvæmdarvaldsins og hvernig það fór með sitt vald og samspil allra þessara þátta og að sjálfsögðu til stjórnsýslunnar sjálfrar, til eftirlitsstofnana, til eftirlits og aðhalds sem eftirlitsstofnunum er veitt af hálfu framkvæmdarvaldsins og þingsins og skoða þarf þá umræðu sem fram fór almennt í þjóðfélaginu innan þings og utan. Ég legg áherslu á að við erum að skoða málið heildstætt, þær tillögur og ábendingar sem fram komu ekki aðeins frá þeim sem sátu á valdastólum heldur einnig hinum sem hafa það hlutverk í samfélaginu að veita aðhald."

Svo virðist sem nefndin hafi hunsað þennan vilja sem fram kom á Alþingi og var ekki mótmælt. Ef sú er raunin mun koma fram krafa um það á þingi að rannsókn af því tagi sem hér er vísað til fari fram. Menn segja að hugsanleg brot kunni að vera fyrnd. Það breytir því ekki að framganga stjórnmálamanna og hlutaðeigandi bissnismanna mun aldrei fyrnast i huga þjóðarinnar. Þess vegna þarf að fá málið rannsakað. Að sjálfsögðu verður beðið eftir rannsóknarskýrslunni því á þessu stigi eru þetta getgátur. En sé þessi raunin - ef horft er framhjá einkavinavæðingu bankanna - mun koma fram formleg krafa um rannsókn. Ég mun sjá til þess.
Umræðan á þingi er hér: http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=136&mnr=180