AFTUR?

Ef 100 milljón króna skuld á mig er gjaldfelld og ég á ekki
peninga til að borga hana þá eru mér allar bjargir bannaðar. Ég
verð gjaldþrota. Augljóst mál.
En maður sem skuldar 50 milljarða, hvernig má það þá vera að hann
geti keypt eignir fyrir milljarða - rétt eins og skuldin skipti
engu máli?
Hvernig má það vera að Ólafur Ólafsson sem kenndur var við Samskip
og lagðist síðan í milljarða brask og útrás er aftur kominn með
eignarhald á Samskipum? Hefur hann gert upp sínar skuldir? Er
hann laus allra mála gagnvart samfélaginu? Finnst honum sjálfum
hann vera laus allra mála fyrr en hann er búinn að gera upp við
íslenskt samfélag? Þannig mætti spyrja um fleiri. Marga fleiri.
Reyndar flesta spilarana í fjárhættuspilinu um Ísland.
Skyldi Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arion banka vera að fara
að fyrirmælum eigenda bankans þegar hann segir að gamlir eigendur
Haga eigi að fá 15% hlut í fyrirtækinu í forgjöf áður en það fer á
markað? Skyldi það vera þetta sem eigendurnir vilja? Hverjir eru
annars eigendurnir? Getur verið að það séu sömu menn og nú er verið
að ívilna? Spyr sá sem ekki veit. Kannski er eignarhald bankanna
í óskyldum höndum og eigendunum slétt sama hver fær hvað ef
það er talið borga sig.
En þjóðinni er ekki sama. Það stríðir gegn réttlætiskennd fólks að
heimili fólks séu gerð upptæk vegna skulda á sama tíma og
milljarðaskuldir eru afskrifaðar og forgjöf veitt til að
komast aftur að kjötkötlunum.
Skyldi Finnur Sveinbjörnsson og félagar hafa íhugað þetta? Ef ekki,
þá er komin ástæða til að þeir geri það. Það er nóg af pottum í
skápunum.
Nú þarf að rýna í lagatextana. Ef ekki tekst að innræta mönnum
siðferði þannig að þeir sjái að sér af fúsum og frjálsum vilja, þá
þarf að gera það með lögum - eftir því sem kostur er. Það eiga sömu
lög og sama siðferðið að gilda um Jón og séra Jón.
Og bankarnir koma okkur öllum við. Það höfum við fengið að reyna.
Þess vegna eigum við - samfélagið - rétt á að vita hvað þeir eru að
aðhafast og að sjálfsögðu hverjir eiga þá. Ef þeir ekki upplýsa það
að fyrra bragði, þá eiga þeir að þurfa að gera það samkvæmt
lagabókstaf.
Við ætlum ekki að endurtaka leikinn.
Ekki aftur!
Það er komið nóg.