Fara í efni

LOFSVERT FRAMTAK GUNNARS SIGURÐSSONAR


Í kvöld var frumsýnd kvikmynd Gunnars Sigurðssonar og félaga um "hrunið", Maybe I should have. Gunnar var einn aðalgerandi í Búsáhaldabyltingunni síðastliðinn vetur - skipulagði fjölda borgarafunda og kom víða við sögu - og er kvikmyndin hans sýn á atburði sem byltingunni tengdust svo og það þjóðfélagsástand sem hún er sprottin upp úr.
Myndin er skemmtilega gerð og  frumleg um margt. Hún er persónuleg í þeim skilningi að hún er sýn Gunnars á atburðarásina. Í myndinni raðar hann saman eigin vangaveltum, eigin viðtölum svo og fréttaviðtölum og myndskeiðum úr fjölmiðlum  þannig að úr verður ágætlega samstæð heild.
Gunnar endar myndina með því að minna okkur á gamla speki um að sá maður sé hættulegastur (valdhöfum) sem hafi engu að tapa! Hárrétt!!!
Í mínum huga stafar þó ekki hætta af slíkum manni heldur er í honum fólgin von. Það er fólgin von í öllu því fólki sem er tilbúið að berjast fyrir betra Íslandi. Í þeirri baráttu dugir engin værukærð. Það þarf að hrista upp í íslensku þjóðfélagi. Sá er blindur sem ekki kemur auga á það.
Við eigum enn eftir að losa okkur við hugsunarhátt útrásartímans; braskið og spillingin ríður enn húsum í fjármálaheiminum og víðar í atvinnulífi. Þessu útrýmum við ekki með löggjöf og reglugerðum einum saman heldur með því að breyta hugarfari í þjóðlífinu, tíðarandanum. Að því vill Gunnar Sigurðsson stuðla með mynd sinni.
Hafi hann og samstarfsfólk  þökk fyrir frábært framtak.
Ég hvet fólk til að sjá myndina þegar sýningar hefjast um næstu mánaðamót í kvikmyndahúsum.