Fara í efni

FERSKIR ERU LÝÐRÆÐISVINDARNIR


Ég er sannfærður um að fyrir fjörutíu árum hefðu hægri sinnaðir handhafar peningafrjálshyggjunnar ekki komist upp með sín verstu verk á undangengnum árum. Tíðarandinn hefði ekki leyft það.
En eftir að þeir höfðu plægt jarðveginn um árabil uppskáru þeir viðhorfsbreytingu í anda markaðsvæðingar sem opnuðu þeim ýmsar dyr.  
Ástæðan fyrir því að þeir komust þó ekki lengra með velferðarkerfið, einkum heilbrigiðsþjónustuna, en raunin varð, í átt til einkavæðingar, er sú, að almenningur leyfði það ekki. Þrátt fyrir allan áróðurinn stríddi markaðsvæðing á þessu sviði gegn almennum viðhorfum í samfélaginu. Samkvæmt skoðanakönnunum vilja Íslendingar borga fyrir heilbrigðisþjónustuna í gegnum almenna skatta - á meðan þeir eru heilir heilsu - en ekki með beinum sjúklingasköttum eftir að þeir (eða samferðarmenn þeirra) eru orðnir veikir. Þetta segir þjóðin í skoðanakönnunum og myndi eflaust einnig segja í þjóðaratkvæðagreiðslu um velferðarþjónustuna.
Í mínum huga er baráttan um tíðarandann hin raunverulega pólitíska barátta, barátta eða viðleitni til að hafa áhrif á það hvernig við hugsum, hvaða lausnir við viljum, hvernig við viljum skipuleggja þjóðfélagið, hvað við leyfum stjórnmálamönnum að framkvæma og hvað við beinlínis óskum eftir að þeir geri.
Ef við ætlum hins vegar að treysta á forræðishyggjuna - "góðu" stjórnmálamennina - til að passa upp á okkur, og hættum að hugsa sjálf, þá erum við dæmd til að tapa. Bæði vegna þess að "góðu" stjórnmálamennirnir eru ekki alltaf við völd og svo er hitt, að "góðu" stjórnmálamennirnir geta stundum gert slæma hluti, stundum eru þeir meira að segja úlfar í sauðargæru. Við munum hann Blair. Þess vegna eru forræðisstjórnmál stórvarasöm. Þau eru líka andlýðræðisleg. Þau taka af fólki rétt sem það á; réttinn til að hafa áhrif á eigin örlög.
Sannast sagna finnst mér stórundarlegt - og kemur mér á óvart  hve djúpum rótum forræðishyggjustjórnmál virðast standa í íslenskri pólitík - sú hugmynd, að stjórnmál snúist um fagmennsku; kunnáttu á því að hafa vit fyrir öðrum. Reyndar virðist forrræðishyggjan nokkuð tengjast hinum stofnanavæddu stjórnmálum. Þegar komið er út úr þröngu - og stundum loftlausu -  hagsmunaumhverfi stjórnmálanna eru nefnilega allt önnur viðhorf uppi. Þá blása sem betur fer ferskari vindar.
Þetta á að verða okkur stjórnmálamönnunum umhugsunarefni.