Fara í efni

LJÓSALAMPAR OG JOHN STUART MILL

DV
DV

Birtist í DV 31. 07. 2009
Almennt séð vil ég eins lítið af boðum og bönnum og mögulegt er að komast af með. Ég er nefnilega sammála þeirri grundvallarhugsun sem breski heimsspekingurinn John Stuart Mill  setti fram í riti sínum Frelsinu, sem kom út á Bretlandi upp úr miðri 19. öldinni og hefur síðan verið fólki um heiminn allan góð lesning. Þar á meðal mér. Í Frelsinu segir á þann veg að enginn maður hafi rétt á því að hlutast til um málefni annars einstaklings nema að sýnt sé að sá einstaklingur skaði aðra með breytni sinni. Þetta er vinnureglan þótt útfærslan kunni að taka á sig ýmsar myndir. Þannig má spyrja hvenær maður skaði mann og hvenær ekki: Einstaklingur hefur rétt til að hlutast til um það að annar reyki ekki nærri honum því vitað er óbeinar reykingar eru skaðlegar. En þótt reykingar bitni mest á þeim sem reykir þá er það ekki bara hans prívatmál því ef hann missir heilsuna af völdum reykinga, þá kemur það fram í kostnaði í heilbrigðiskerfinu sem aftur bitnar á þeim sem ekki reykja; öllum þeim sem fjármagna heilbrigðiskerfið! Með öðrum orðum, þótt reglan sé einföld, er veruleikinn stundum flókinn.

Eins hættulegt og reykingar

 Hvar koma ljósalampar inn í þessa mynd? Jú, nú liggur fyrir óyggjandi sönnun þess að notkun ljósalampa veldur húðkrabba og að yngsta kynslóðin er í mestri hættu.  
Samkvæmt nýrri rannsókn eykst hættan á því að fá sortuæxli um 75% hefji ungmenni reglubundin ljósaböð fyrir þrítugt. Í yfirlýsingu frá Alþjóðakrabbameinsstofnuninni segir að fullyrða megi að notkun ljósabekkja sé jafnskaðleg og og tóbaksreykingar.
Samstarfshópur um útfjólubláa geislun sem Geislavarnir áttu frumkvæði að á árinu 2003 og í eru fulltrúar Krabbameinsfélags, Landlæknis, Lýðheilsustöðvar og Félags húðlækna, auk fulltrúa Geislavarna, hefur haldið uppi margþættri fræðslu um skaðsemi ljósabekkja undanfarin ár. Þar ber hæst árlegt átak „Hættan er ljós", þar sem m.a. eru birtar auglýsingar í fjölmiðlum til að vekja athygli á hættunni. Frá árinu 2004 hefur notkun ljósabekka jafnframt árlega verið könnuð af Gallup sem hluti af átakinu.  
Árangurinn af þessu forvarnarstarfi er sá að notkun ljósabekkja á Íslandi hefur minnkað verulega undanfarin ár, en því miður minnst hjá yngstu aldurshópunum, sem jafnframt eru í mestri áhættu. Þar hafa varnaðarorðin ekki hrifið.

Upplýsingar eða bönn?

Hvað skal til bragðs taka? Á að hafa vit fyrir yngstu kynslóðinni með bönnum? Hvað hefði John Stuart Mill sagt?
Eigum við að taka Skota okkur til fyrirmyndar, sem banna notkun ljósabekkja innan 18 ára aldurs? Þetta er nokkuð sem Norðurlandaþjóðirnar ræða nú sín á milli og koma Geislavarnir ríkisins að þeirri umræðu fyrir hönd heilbrigðisráðuneytisins íslenska.  
Sem heilbrigðisráðherra hef ég beðið Geislavarnir um tillögur. Til allra beini ég áskorun um að sýna árvekni -  og kannski fyrst og fremst til þeirra sem reka ljósabekkina. Þeir mega gjarnan hafa vinnureglu Frelsisins í huga:  Allir eiga  að  vera frjálsir til orða og athafna að því tilskyldu að þeir skaði ekki aðra.
Nú er þörf á sameiginlegu átaki: Upp með varnaðarorðin!
Ögmundur Jónasson