BARINN ÞRÆLL Á RAUÐSMÝRI

Birtist í DV 05.08.09.
DVBjartur í Sumarhúsum hefur lifað með þjóðinni allar götur frá því Sjálfstætt fólk Halldórs Laxness kom út á fjórða áratug síðustu aldar. Bjartur vildi ekki sætta sig við fyrirsjáanlegt hlutskipti sitt í lífinu: Að verða til æviloka undirokað vinnuhjú á Rauðsmýri. Hann vildi verða sjálfstæður maður, jafnvel þótt það kostaði erfiði, svita og tár. Bjartur kallaði afdalakot sitt Sumarhús og lesandum Sjálfstæðs fólks er gert ljóst að lífsbarátta Bjarts á heiðum upp var háð gegn ofurefli þar sem mannlegt samfélag og náttúruöflin lögðust á eitt um að torvelda hana.
Bjartur í Sumarhúsum er í hugum margra tákngervingur hins óraunsæja draumóramanns sem ber höfðinu við steininn. Í stað þess að beygja sig undir kaldhamraðan veruleikann í mannheimum og í náttúrunni þá segir hann hvoru tveggja stríð á hendur, dæmdur til að mistakast.

Húsbændur og hjú

Aðrir hafa séð ýmsa aðra þræði í baráttu Bjarts. Hann sé tákn baráttu undirokaðs fólks gegn valdi og yfirgangi og nauðhyggju stéttasamfélagsins. Slík barátta hafi í aldanna rás iðulega verið erfið og oftast þótt óraunsæ og vonlítil. En ef aldrei hefði brunnið í hjörtum manna baráttuandi, ódrepandi löngun til frelsis; þráin til að geta borið höfuðið hátt, þá værum við ekki þar á vegi stödd í baráttu fyrir frjálsu lýðræðissamfélagi sem við þó erum - þrátt fyrir allt. Bjartur hafi þannig verið í uppreisn gegn kyrrstöðusamfélaginu - Rauðsmýrinni - þar sem húsbændur og hjú þekktu hvað til friðarins heyrði.
En hvers vegna rifja upp hlutskipti Bjarts í Sumarhúsum? Jú, það gerir Jóhann Hauksson, blaðamaður, í grein í DV í síðustu viku. Að vísu er heimilsfang Bjarts ekki lengur Sumarhús heldur Grímshagi en það er heimilisfang undirritaðs. Grein Jóhanns heitir Bjartur í Grímshaga og fjallar um þá menn sem ekki átta sig á sínum vitjunartíma. Og nú sé ekki rétti tíminn að styggja alla góðu vinina okkar í Evrópusambandinu - því þar sé framtíðina að finna. Bjartur í Grímshaga átti sig greinilega ekki á þessu og vitnar Jóhann því til marks í eftirfarandi orð mín af heimasíðu: "Allt Icesave málið er kennslubókardæmi í ofríki...Látum hótanir þvert á móti verða til þess að herða okkur í ásetningi um að komast út úr vandræðum okkar af eigin rammleik. Um hjálpina að utan hef ég einnig miklar og vaxandi efasemdir í efnahagslegu samhengi."

AGS og ESB gegn Íslandir

Við þessi orð mín stend ég. Við eigum að treysta á okkur sjálf og ekki gleyma því að Evrópusambandið kemur ekki til okkar nú færandi hendi heldur beitir þvingunum til að knýja okkur til að undirgangast afarkjör lánadrottna, Breta og Hollendinga. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er heldur ekki að gefa okkur neitt. Því fer fjarri. Hann stendur þvert á móti vaktina og meinar alþjóðasamfélaginu að veita okkur aðstoð nema við hlítum skilyrðum Evrópusambandsins.
Íslendingum er nú sagt að þeir þurfi að skilja það hlutskipti sitt að hafa tapað í spilavíti kapitalsimans. "Þið töpuðuð", sagði Uffe Elleman, fyrrum utanríkisráðherra Danmerkur. Á honum var að skilja að þess vegna ættum við ekki annarra kosta völ en fara að boðvaldi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem kominn er til Íslands í umboði Evrópusambandsríkja til að berja Íslendinga til hlýðni. Uffe Elleman er fundamentalisti í markaðshyggju, og þarf hans afstaða ekki að koma á óvart. En hitt þykir mér undarlegt þegar jafnvel félagslega sinnað fólk virðist reiðubúið að gjalda jáyrði við Icesave - án þess svo mikið að kynna sér innihald samningsins - og jafnvel þótt reikninginn eigi að skrifa á eignalaust fólk inn í framtíðina! Allt er þetta gert í þeirri trú að undirgefni muni leiða til farsældar.

Hnjáliðamjúkir Svíar

Þegar valdastétt samtímans syngur einum rómi, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið með hnjáliðamjúka Svía í forsvari, þá lyppast allt of margur Íslendingurinn niður, greinilega með þá von í brjósti að hlýðnin muni á endanum borga sig - allt verði fyrirgefið að sjö árum liðnum þegar Icesave afborganirnar eiga að hefjast.
"Gjaldið sem Íslendingar greiða nú er gjaldið fyrir það að standa einir," hefur Jóhann Hauksson eftir Uffe Ellemann. Og hann ætlar að einmitt það vilji Bjartur í Grímshaga - að Íslendingar standi einir. Þetta er röng ályktun hjá Jóhanni Haukssyni. Ég vil að Íslendingar taki þátt í alþjóðlegri samvinnu og hef alla tíð verið talsmaður samstöðu og samstarfs, heima og heiman.
En ég tel jafnframt að Íslendingar eigi aðeins að undirgangast þá skilmála gagnvart öðrum ríkjum sem eru réttmætir og sem ætla má að við getum risið undir og staðið við. Annað er ómerkilegt og ekki sæmandi fullvalda þjóð með sjálfsvirðingu.
Íslendingar munu klára sig vel á alþjóðavettvangi. Það munu þeir þó aðeins gera hafi þeir til að bera sjálfsvirðingu. Sjálfsvirðingin skapar svo aftur virðingu í okkar garð. Þeir vaða villur sem halda að allra meina bót sé að leggjast hundflatur fyrir Evrópusambandinu. Þeir enda þar hugsanlega innandyra. Á Rauðsmýri samtímans. En sem barinn þræll.

Fréttabréf