HRÆÐUMST EKKI HÓTANIR


Stöðugt koma fram nýjar upplýsingar sem tengjast Icesave-skuldbindingunum. Álitamálin hrannast upp. Líka hótanirnar. Ef við ekki göngum í einum grænum frá Icesave er okkur sagt að aðildarumsókn til Evrópusambandsins sé í uppnámi!
Skyldi öllu fórnandi fyrir það?
Ef við göngum ekki í snarhasti frá Icesave þá koma ekki lán í gjaldeyrisforðann!
Skyldi öllu fórnandi fyrir það?
Nú síðast er okkur sagt að ef ekki verði þegar í stað veitt ríkisábyrgð á Icesave kröfur Breta og Hollendinga þá sé samkomulag um aðkomu kröfuhafa að Kaupþingi í hættu stefnt!
Skyldi öllu fórnandi fyrir það?
Í ræðu sem ég flutti um Icesave samninginn á Alþingi þegar hann fyrst kom fyrir þingið hvatti ég til þverpólitískrar samstöðu; að Íslendingar sneru bökum saman og hugsuðu um þjóðarhag og aðeins þjóðarhag. Sjá:
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090702T152041&horfa=1
Ég hef styrkst í þessari afstöðu. Við sjáum það sífellt betur á hve ósvífinn hátt er sótt að íslenskum almenningi. Sífellt er gefið í skyn að allt verði betra eftir því sem við lútum lægra. Þetta er mikil villuhugsun. Þótt íslenskir fjármálamenn hafi farið illa að ráði sínu á þjóðin ekki að þurfa að vera á hnjánum. Við eigum ekki að hræðast hótanir og megum aldrei láta stjórnast af ótta og óðagoti, hvað þá að hið gamalkveðna, "þetta reddast" stýri för. Nú er þörf á raunsæi og yfirvegun þar sem hagsmunir almennings eru í fyrirrúmi.

Fréttabréf