Á ALÞINGI FYRIR TÍU ÁRUM


Helgi Guðmundsson skrifar umhugsunarverðan pistil í "frjálsum pennum" hér á síðunni þar sem hann gerir að umtalsefni þá ótrúlegu bíræfni "kaupenda" Landsbankans og Búnaðarbankans að fá lánaða peninga hver hjá öðrum til kaupanna - peningalán sem síðan voru aldrei að fullu greidd!
Fréttir úr fjármálaheiminum eru ekki allar jafnglæsilegar nú um stundir og ástæða til að við sameinumst um að sýna aðhald og standa samfélagsvaktina. Það gengur ekki að við skrælum niður velferðarkerfið í landinu á sama tíma og fjármunum er sólundað í fjármálageiranum. Það gengur ekki heldur að við opnum gráðugu fjárfestigarkapitali leið að auðlindum okkar - t.d. orkunni á Reykjanesi - eða innan velferðarkerfisins í landinu. Nú verðum við að draga lærdóma af reynslunni.
 
Oft hef ég heyrt sagt að enginn hafi séð þetta fyrir. Það er vissulega rétt að sennilega hefur enginn haft hugarflug til að sjá fyrir að hrunið yrði eins rosalegt og raun varð á. Hins vegar voru uppi varnaðarorð frá upphafi - allt frá þeim tíma þegar hringekjan var að fara í gang fyrir alvöru.
Þessu til áréttingar rifja ég hér upp - nánast af handahófi - ræðu sem flutt var á Alþingi fyrir áratug þegar bankarnir voru hrifsaðir úr höndum þjóðarinnar til að fela þá í hendur svokölluðum "kjölfestufjárfestm."
Á þessum tíma - fyrir áratug - var hringekjan að fara í gang fyrir alvöru. Á Alþingi var vísað til þess að þjóðin væri "...farin að fá á tilfinninguna að hún búi í spilavíti..." Þetta reyndist því miður meira en tilfinningin ein....

http://www.althingi.is/altext/125/10/r04210331.sgml

Herra forseti. Við höfum hlýtt á stefnuræðu hæstv. forsrh. Í stuttu máli telur hann að á Íslandi sé allt í lukkunnar velstandi. Nú er það svo að efnahagskerfi heimsins er að verða sífellt samtengdara. Það sem gerist á einum stað hefur áhrif á öðrum og það sem meira er, vegur þessa efnahagskerfis liggur í bylgjum, upp og niður. Stundum er mikil eftirspurn og þensla, hjólin snúast hratt, í annan tíma hægir á þeim, úr eftirspurn dregur með tilheyrandi verðfalli á mörkuðum og atvinnuleysi.

Um þessar mundir snúast hjól efnahagslífsins hratt í þeim heimshluta sem býr við ríkidæmi og það gera þau vissulega hér á landi nú um stundir. Góð stjórnlist við slíkar aðstæður er að stuðla að samræmi í gangverki efnahagskerfisins, að sjá til þess að hjólin snúist jafnhratt en ekki með mismunandi hraða því að þá ber okkur af leið, eins og dæmin sanna. Í þessu efni hefur ríkisstjórninni brugðist bogalistin. Verðmætasköpunin í landinu hefur verið hægari en eftirspurn eftir vörum og þjónustu frá öðrum þjóðum. Afleiðingin er geigvænlegur viðskiptahalli.

Í fyrra hallaði á Íslendinga um 30 milljarða kr. í viðskiptum við útlönd og því miður bendir allt til að sama sagan sé að endurtaka sig á þessu ári einnig. Þarna er líka komin skýringin á því að þótt ríkið nái sínum skuldum niður, eins og hæstv. fjmrh. gumar af, þá fara skuldir íslensku þjóðarinnar vaxandi og samkvæmt þjóðhagsspá er gert ráð fyrir því að fram á næstu öld muni skuldir Íslendinga halda áfram að vaxa og muni nema um helmingi af þjóðarframleiðslunni í lok næsta árs, hækka um 1,5% frá því sem nú er.

Hvers vegna er ríkisstjórnin þá svona ánægð? Varla er ástæða til að gleðjast yfir mestu byggðaröskun sem dæmi eru um í Íslandssögunni eða þegar kvótinn gengur kaupum og sölum á milli byggðarlaga með þeim afleiðingum að hundruð fjölskyldna missa lífsviðurværi sitt á sama tíma og samfélagsþjónustan er brotin undan þeim. Þar er að verki þessi glaða og ánægða ríkisstjórn. Án þess að hreyfa svo mikið sem litla fingur horfir hún upp á neyðarástand skapast hjá efnalitlu fólki á leigumarkaði. Sallaróleg baðar hún sig áfram í sjálfumgleðinni.

Nú stendur til að skila ríkissjóði með 15 milljarða rekstrarafgangi. Hvernig skyldi eiga að fara að því? Jú, þar ætla menn að halda sig við sömu aðferðafræðina og á undanförnum árum. Með því að frysta tekjuviðmiðanir bóta og með því að láta skattleysismörkin dragast aftur úr launaþróun í landinu kemst hæstv. fjmrh. lengra og lengra niður í vasa láglaunafólks og millitekjufólks. Það er á kostnað þessa fólks, láglauna- og millitekjuhópa, öryrkja og barnafólks --- barnabætur verða á næsta ári einum milljarði lægri að raungildi en þær voru á árinu 1995 --- sem rekstrarafgangur verður til í ríkisbúskapnum. En hálaunamennirnir, handhafar fjármagns og kvótabraskarar, eru áfram háheilagir. Við þeim er ekkert hreyft nema þá til að ívilna eins og gert var með skattbreytingum á síðasta kjörtímabili þegar skattur af arði var færður úr venjulegu tekjuskattshlutfalli niður í 10%, lækkaður um 30%, enda halda áfram að berast fréttir úr þeirri áttinni frá fjármagnseigendum og kvótabröskurum. Af þeim berast fréttir, ekki af milljónum, ekki tugum milljóna, ekki hundruðum milljóna heldur milljörðum sem einstaklingar og fjölskyldur, oft ótengdar fiskveiðum, taka í sinn hlut fyrir að selja aðgang að sameiginlegum gullkistum okkur við strendur landsins. Þessir aðilar og aðrir sem kunna á klæki verðbréfanna hafa á undanförnum árum braskað sem aldrei fyrr. Þeir reisa kringlur og þeir kaupa fótboltalið. Þeir eru kallaðir frumkvöðlar, þótt erfitt sé að átta sig á frumleikanum, enda er svo komið eftir þetta sumar af braski og fláræði að þjóðin er farin að fá á tilfinninguna að hún búi í spilavíti.

En allt þetta er ríkisstjórn Íslands hæstánægð með. Ekki nóg með það, hún brosir út að eyrum. Hvers vegna skyldu hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., að ógleymdum hæstv. iðnrh., vera svona ánægðir? Á þessu hljóta að vera skýringar. Sú nærtækasta er sennilega sýnileg hér á stólunum. Það er gott á þeim að sitja. Mönnum þykir gott og skemmtilegt að vera í ríkisstjórn. En það hljóta að vera aðrar skýringar á ánægjunni og sjálfumgleðinni og reyndar komu þær fram í máli hæstv. forsrh. áðan. Hann sagði að útlendingar væru svo ánægðir með ríkisstjórnina sína og allt það sem hún hefði fyrir stafni. Davíð Oddsson sagði að erlendir sérfræðingar væru yfir sig hrifnir af frammistöðu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.

En hverjir skyldu þessir útlendingar vera og hvað er það sem þeir eru svona ánægðir með? Reyndar er þetta ekkert nýtt. Við höfum heyrt þetta áður, t.d. þegar ríkisstjórnin markaðsvæddi húsnæðiskerfið í fyrra og braut niður félagslegan hluta þess, þá fékk hún ágætiseinkunn hjá markaðsfræðingum OECD. Og þegar hún lýsti því yfir að hún ætlaði að halda áfram á braut einkavæðingar, þá hrópuðu sömu menn margfalt húrra. Það gerðu þeir líka hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og bakraddirnar mátti heyra allt inn í marmarasali alþjóðlegu stórfyrirtækjanna sem nú gleypa upp einkavædda almannaþjónustu, póstinn, símann, heilu skóla- og heilbrigðiskerfin, vatnsveitur og raforkuver víðs vegar um jarðarkringluna og eru nú að ná einokunarstöðu á heimsvísu. Þetta vita þeir sem leggja það á sig að kynna sér þessi mál.

Að sjálfsögðu eru þessir aðilar eða fulltrúar þeirra ánægðir með yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda, ríkisstjórnar Íslands og reyndar sumra sveitarstjórnarmanna einnig, um að nú skuli hafist handa um að einkavæða raforkugeirann allan í landinu. Landsvirkjun byggir á gamaldags hugsun, sagði borgarstjóri Reykjavíkur á dögunum og talaði fyrir einkalausnum í stað hinnar hallærislegu samvinnu.

Auðvitað fá menn lof frá skoðanabræðrum innan lands og erlendis frá fyrir slíka afstöðu og slíkar yfirlýsingar eða skyldu ráðamenn hjá Norsk Hydro ekki vera ánægðir með hann Finn okkar Ingólfsson, hæstv. iðnrh.? Hann er að sjálfsögðu dáður og lofaður innan fjárfestingargeira stóriðjunnar um heim allan. Þar hafa menn aldrei kynnst eins liðlegum samningamanni. Svo hefur hann umhverfisráðherra sér við hlið sem segist styðja allt sem hann segir og allt sem ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar aðhafist. Það er ekki að undra að mannskapurinn fái klapp á kollinn í útlöndum og að þeir sem nú verma ráðherrastóla á Íslandi þyki sérlega efnilegur hópur til að stýra þjóðinni inn í nýja öld þar sem allt á að vera falt, þjóðin til afnota í tilraunaskyni ef því er að skipta, og náttúran til sölu bara ef einhver er tilbúinn að borga.

En nú er rétt að staldra við því að ekki er allt sem sýnist. Það eru nefnilega til fleiri útlendingar en þeir sem sitja á valdastólum þessa stundina. Það er til fólk sem vill halda inn í nýja öld á annan hátt og uppbyggilegri en þessir ökumenn fortíðarhyggjunnar sem sjá framfarir um baksýnisspegilinn og horfa til árdaga markaðskerfanna, þjóðskipulags sem setti svip á okkar heimshluta fram á miðbik þessarar aldar áður en menn fóru að smíða velferðarríki samtímans og skapa grundvöll fyrir réttlátu jafnaðarsamfélagi. Það er til fólk sem neitar að gera gamlar frjálshyggjukreddur og kauphöllina í New York að biblíu og leiðarljósi inn í nýja tíma. Það er til fólk og því fer fjölgandi sem vill taka stefnuna á siðað samfélag jafnaðar og réttlætis, fólk sem finnst það ekkert gamaldags og úrelt að vilja velferð fyrir alla þegna þjóðfélagsins. Nýjar hreyfingar eru að vaxa upp úr samfélaginu, hreyfingar sem leggja áherslu á náttúruvernd, hreyfingar sem segja að ekki sé neitt til sem heitir ásættanlegt atvinnuleysi, hreyfingar sem segja að þær séu búnar að fá nóg af því að verjast niðurrifi. Nú sé kominn tími til að byggja upp að nýju.

Menn gera sér grein fyrir því að við ramman reip er að draga. Ráðandi öfl í samfélaginu, skoðanamyndandi aðilar, þeir sem taka þátt í að smíða tíðarandann, leggjast allt of oft á sveif með stóreignafólki og hygla talsmönnum sérhyggjunnar. Kauphallarforstjórar frá New York sitja heiðursfundi og boð, jafnvel viðhafnarboð forseta þjóðarinnar á Bessastöðum, sem sérstakir merkisberar framtíðarinnar. Þetta hefur orðið mörgum umhugsunarefni. Á hinu furðuðu sig færri þegar forsætisráðherra Íslands lagðist í öfugmælakveðskap á liðnu sumri og sagðist vera að tryggja dreifða eignaraðild að bönkum um leið og hann hrifsaði þá úr höndum þjóðarinnar allrar, 275 þúsund einstaklinga og lagði að því drögin að fela þá í hendur örfáum fjármálamönnum.

Herra forseti Alþingis. Það er gott að Alþingi Íslendinga skuli vera að koma saman. Forseti þjóðarinnar flutti góða ræðu við þingsetninguna. Sérstaklega voru umhugsunarverð ummæli hans sem lutu að mikilvægi Alþingis sem kjölfestu í lýðræðisþjóðfélagi.

Því miður hefur það verið að gerast að völd fulltrúa almennings og möguleikar til afskipta af efnahagslífinu hafa verið skertir. Fulltrúar lýðræðisins hafa verið látnir víkja fyrir fulltrúum peninganna en það er rétt sem kom fram í máli forseta Íslands að peningaöflin þurfa aðhald og það er okkar sem hér sitjum að veita það aðhald.

Á flestum mönnum er bjartur blettur. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, og sennilega er það forsrh. flestum mönnum fremur þar innan borðs að þakka, hefur enn sem komið er ekki viljað láta Evrópusambandið gleypa okkur með húð og hári. Það er vel. Hins vegar er ljóst að ríkisstjórnin gengur erinda fjármálaafla, erlendra sem innlendra. Hún hirðir ekki um þá sem standa höllum fæti og hún lætur sér fátt um finnast þótt efnaleg misskipting, ríkidæmi á aðra höndina, örbirgðin á hina, fari vaxandi í þjóðfélaginu. Slík ríkisstjórn þarf á aðhaldi að halda.

Ég hef þá trú að á komandi kjörtímabili muni ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fá þá stjórnarandstöðu sem hún verðskuldar og fyrir því eru þrjár ástæður.

Í fyrsta lagi er lokið þeirri lamandi umræðu sem setti svip á allt síðasta kjörtímabil um skipulagsmál stjórnarandstöðunnar. Til sögunnar eru komnir nýir flokkar með mismunandi áherslur í umhverfis- og atvinnumálum, utanríkismálum og samfélagsmálum. Ég heyrði ekki betur en talsmaður Samfylkingarinnar væri að hvetja ríkisstjórnina til dáða í einkavæðingu í útvarpsfréttum í gær. En þótt áherslur og stefnumál séu mismunandi eigum við margt sameiginlegt og ég hef þá trú að við munum í sameiningu reka kröftuga og uppbyggilega stjórnarandstöðu á komandi kjörtímabili.

Í öðru lagi gera allir sér glögga grein fyrir því að hér verður að standa vaktina, hér í þessum sal, gegn fátækt á Íslandi og fyrir jafnrétti kynjanna, fyrir nýbúa og minnihlutahópa, fyrir náttúru landsins og sjálfstæði þjóðarinnar.

Í þriðja lagi þá er að því komið að þjóðin fái það sem hún á skilið og það sem flest vel þenkjandi fólk vill. Valkost við þá stefnu sem rekin hefur verið úr Stjórnarráði Íslands allan þennan áratug. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð teflir fram slíkri stefnu. Við setjum fram ítarlega útfærðar tillögur um endurreisn byggðanna. Við boðum nýja landhelgisbaráttu þar sem kvótinn verði endurheimtur til byggðarlaganna í þágu vistvænna strandveiða. Við viljum móta nýja og sjálfbæra orkustefnu. Við boðum samráð í stað valdboðs. Við viljum byggja upp kröftuga samfélagsþjónustu, nýta eigið hugvit og reynslu annarra þjóða þar sem best hefur til tekist.

Ísland er auðugt land. Hér býr dugleg og vinnusöm þjóð. Við viljum stuðla að því að sá dugnaður og sú eljusemi og allt það sem Ísland býður upp á nýtist þjóðinni allri á réttlátan hátt og í fullri sátt við náttúru landsins.

Fréttabréf