Fara í efni

ÞÖRF Á YFIRVEGUN


Ekki eru menn á eitt sáttir um hvernig eigi að fara með frágang Icesave-málsins. Talsmenn fylkinga taka stórt upp í sig.  

Þegar einangruð


Þórólfur Matthíasson, prófessor er í hópi þeirra sem vill umsvifalaust samþykkja ábyrgð íslenska ríkisins á Icesave. Annars sé voðinn vís : ,,Ísland fengi hvergi fyrirgreiðslu, fyrirtæki færu unnvörpum í þrot og við yrðum sett á sama stall í samfélagi þjóðanna og Kúba og Norður-Kórea" segir Þórólfur í Fréttablaðinu. Hugsun Þórólfs byggir á því að ef okkur ekki tekst að fá 5 milljarða dollara í gjaldeyrisvarasjóði, einsog nú er stefnt að samkvæmt ráðleggingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins,  til að losa um gjaldeyrishömlur þá séum við komin alla leið til Norður-Kóreu. Þetta er augljóst af tilvitnuðu viðtali við hann í Fréttablaðinu. En hvað með vaxtagreiðslurnar þegar fram líða stundir, bæði af þessum lánum og Icesave? Ekki kemur fram að prófessorinn hafi leitt sérstaklega hugann að því - né hinu að Ísland er nú þegar í stöðu hins einangraða lands; á valdi lánadrottna sem beita fyrir sig AGS. Spurningin er hvernig við komumst út úr þeirri stöðu án þess að brjóta niður innviði samfélagsins.  
Á hinum vængnum eru svo þeir sem ekki vilja gangast við neinum skuldbindingum vegna Icesave. Íslendingar eigi að virða allar kröfur á hendur þjóðinni að vettugi. Þessu er ég ekki sammála.

Ábyrgð okkar hefur takmörk

Ég tel ég ábyrgð okkar sem þjóðar vera mikla. Hún á sér þó sínar takmarkanir. Icesave eignirnar (eining þær sem skotið hefur verið undan) eiga að ganga til greiðslu á töpuðum innistæðum og einnig ábyrgðir sem eðlilegt má teljast að skrifist á lögbundnar  innistæðutryggingar - en heldur ekki meira!  (sbr. röksemdir þeirra Stefán Más Stefánssonar og Lárusar Blöndals sem vilja fá úr því skorið hverjar þjóðréttarlegar skyldur okkar eru).
Nú þurfum við að hugsa af yfirvegun. Ég trúi ekki öðru en að ná megi þverpólitískri samstöðu um framhaldið. Enginn má gefa sér fyrirfram niðurstöðuna. 
 
Tölum máli Íslands

Eitt er víst: Við þurfum að leggjast í mikinn áróður fyrir Íslands hönd út í hinum stóra heimi. Við þurfum að segja að þjóðin sé reið og leið yfir því sem gerst hefur; að við viljum greiða það sem okkur ber; virða þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar; fá aðstoð við að ná í fjármuni sem skotið hefur verið undan þannig að þeir sem misst hafa innistæður sínar fái þær greiddar. Við eigum einnig að segja að við ætlum að gæta að félagslegu réttlæti; að við ætlum ekki að láta sektarkennd þjóðarinnar snúast upp í þá andhverfu að reikningur vegna tapaðrar innstæðu í London eða Amsterdam verði sendur til innheimtu á göngudeildum Landspítala Íslands næstu áratugina.
Ég hef lýst efasemdum um samningsdrögin sem nú liggja fyrir. Ég hlusta grannt eftir rökum með og móti og hef í viðtölum hvatt til þess að það gerum við öll - innan þings sem utan.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/06/26/umsatur_um_island/
http://www.visir.is/article/2009780531148