Fara í efni

Á SEÐLABANKINN AÐ ÞJÓNA FÓLKI EÐA FJÁRMAGNI?


Fróðlegt er að fylgjast með viðbrögðum við þeim ummælum mínum að Seðlabanki eigi að taka mið af almannahag í ákvörðunum sínum um vexti og að hann eigi að  lúta lýðræðislegu valdi í stað þess að þjóna handhöfum fjármagns. Ég hef sagt að hávaxtastefna Seðlabankans komi skuldugum fyrirtækjum og heimilum í koll og sé smafélaginu beinlínis skaðleg. Eðlilegt sé að spyrja hvort breyta eigi lögum um Seðlabanaka Íslands þannig að hann sé beintengdur almannahagsmunum.
Af þessu tilefni er eftirfarandi haft eftir Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingmanni Samfylkingar í Fréttablaðinu í dag: "Ég tel það mjög óheppilegt að ráðherra sé óbeint að hóta Seðlabankanum með þessum hætti." Hún segir ennfremur að mikilvægt sé að peningamálanefnd Seðlabankans verði áfram óháð ríkisstjórninni og veiti henni aðhald með ríkisfjármálin. "Augljóslega vill bankinn fá beinar tillögur í hendurnar frá ríkisvaldinu í stað þess að fá aðeins munnleg vilyrði. Með því er verið að sýna ríkinu aðhald og þá væri ráðherrum hollara að bregðast við með því að búa svo um hnútana í sínu ráðuneyti að hægt verði að lækka vexti í stað þess að vera með svona óbeinar hótanir."
Hvað á Sigríður Ingibjörg Ingadóttir við? Telur hún að samhengi sé á milli þess að draga úr útgjöldum til Landspítala og að lækka stýrivexti? Fróðlegt væri að fá á þessu nánari skýringu. Einnig hvað hún á við þegar hún stillir upp sem andstæðum "faglegum" og "pólitískum"  forsendum fyrir vaxtaákvörðunum: "Við getum vissulega haft okkar skoðanir á þeim ákvörðunum sem teknar eru í Seðlabankanum en það er einnig mikilvægt að þær ákvarðanir séu teknar á faglegum forsendum en ekki pólitískum. Eins og málum er nú háttað held ég að við getum treyst því að svo sé, í það minnsta tel ég hann hafa staðið faglega að málum."  Þarf þingkona Samfylkingarinnar ekki að skýra nánar fyrir skuldsettum heimilum og fyrirtækjum, sem ramba á barmi gjaldþrots, hvað hún á við?
Bjarni Benediktsson
, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur uppi sam konar málflutning og segir mig sem ráðherra þurfa að þola "aðhald" frá Seðlabaakanum!: "En það kemur ekkert á óvart að fá hugmynd úr þessari átt sem miðar að því að koma sem mestu ákvörðunarvaldi undir stjórnmálamenn...Það sem ráðherra, sem er óánægður með vaxtaákvörðun Seðlabankans, þarf að gera er að líta sér nær. Stjórnarinnar bíður skýrt afmarkað verkefni og það er að skapa traust og tiltrú á að hún hafi náð utan um vandann og sé með trúverðugar tillögur um hvernig skuli unnið á honum. Þessu hefur hún ekki risið undir svo það ætti ekki að koma þessum mönnum svo á óvart að vaxtalækkunarferlið sé ekki hraðara en þetta." Einnig forsvarsmaður Sjálfstæðisflokksins tengir þannig vaxtalækkun við niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Þau Bjarni og Ingibjörg Inga eru ekki ein á báti. Þetta er einnig viðhorfið innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem kunnugt er.   

Árið 2001 var lögum um Seðlabanka Íslands breytt í þá vera að auka sjálfstæði banakans og þrengja sjónarhorn hans. Þeir sem nenna að fletta upp í þingræðum geta séð rökin sem ég færði fyrir því að þetta væri óráðlegt.Í stað þess að horfa bara til verðbólgumarkmiða taldi ég að bankinn ætti að hafa hagsmuni alls samfélagsins undir, eins og hann hafði haft fram til þessa lögum samkvæmt. (http://www.althingi.is/altext/126/04/r06110302.sgml).
Við þetta er því að bæta Sjálfstæði Seðlabanka er skáldskapur. Spurningin er hvaða hagsmunum bankinn eigi að þjóna. Seðlabankar hafa á undangengnum nýfrjálshyggjuáratugum víðast hvar verið settir til að þjóna fjármagni fremur en fólki.  Þeir voru gerðir að musterum til að þjóna þeim sem eiga peninga og þurfa að ávaxta þá. Þetta kalla hægri sinnaðir stjórnmálamenn fagmennsku!
Margt ágætt hefur verið sagt í tengslum við þetta efni, samanber ummæli um þessa frétt: http://eyjan.is/blog/2009/06/06/ogmundur-vill-afnema-sjalfstaedi-sedlabankans-segir-sjalfstaedid-hluta-af-peningahyggju-lidins-tima/