UMSÁTRIÐ UM ÍSLAND


Gordon Brown, liggur undir ámæli heima fyrir. Hann er sakaður um að hafa verið glámskyggn og óvarkár. Og alltaf þegar að honum er vegið, þá notar hann Íslandstrompið. Íslendingarnir, þeir fóru illa með okkur, segir Brown. Og við ætlum að sýna þeim hvar Davíð keypti ölið.

Þetta er hinn pólitíski raunveruleiki sem umlykur Icesave deiluna. Það er ekki létt verk að vinna málstað okkar fylgi -  í þessu andrúmslofti. Menn hafa hlegið það útaf borðinu og kallað samsæriskenningar, að stórþjóðirnar standi saman og níðist á smáþjóðum, sem illa ná að bera hönd fyrir höfuð sér.

Oft og lengi hrópuðum við aðvörunarorð, þegar bankaæðið var að fara af stað, þegar frjálshyggjualgleymið var að byrja. Enginn hlustaði. Eins er nú. Alþjóðagjladeyrissjóðurinn, AGS, lýtur stjórn stórveldanna. Stórveldin hafa meirihluta atkvæða. Þau ráða öllu. Við þurfum að gjalda varhug við AGS. Við eigum að vera reynslunni ríkari. Oft fer verr en varir, segir hið fornkveðna.

Það að vara við AGS, hefur verið talið vera heimóttarskapur og neikvæðni. Vænisýki, paranoja. Þangað til í gær. Gordon Brown sagði:

"Sú ábyrgð hvílir á íslenskum stjórnvöldum framar öllu öðru að borga skuldir sínar, sem er ástæðan fyrir því að við erum að semja við AGS og aðra aðila um það hversu hratt Íslendingar geta endurgreitt það tap sem þeir hafa valdið."

Nú telja margir að hann hafi fengið rangar upplýsingar, að hann sé ekki inni í málunum og svo framvegis. En það er ekki aðalatriðið. Heldur hitt, hvernig hann skilur hlutverk AGS. Samkvæmt skilningi Gordon Brown á AGS að hafa eftirlit með þrotabúinu Ísland og gæta þess að íslenska ríkisstjórnin raði í rétta forgangsröð, sem er svona:

Númer eitt, tvö og þrjú: Byrja fljótt að greiða Icesave og öðrum erlendum kröfuhöfum.

Til þess þarf:

1) Draga saman ríkisútgjöld
2) Halda háu vaxtastigi

Kannast menn við þessa mynd?

Ef við réðum sjálf, þá væri forgangsröðin þessi:

  1. Halda uppi atvinnustigi

  2. Hafa vexti við núllið

  3. Gæta að stoðkerfum samfélagsins

  4. Greiða þær skuldir sem við teljum sanngjarnt og gerlegt að greiða.

Við verðum að setja mun meiri orku í Icesave samninga og styðja samninganefndir okkar með ráðum og dáð. Við þurfum að geta sýnt fulla hörku, þar sem það á við. Umsátrið um Ísland er að hefjast.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/05/08/heimslogregla_kapitalismans/

Fréttabréf