Fara í efni

STUTT SVAR TIL PRÓFESSORS

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 28.02.09.

ÁGÆTI Guðjón Magnússon.
Þakka rammagrein þína í Morgunblaðinu í gær. Þú spyrð mig tveggja spurninga um rekstur skurðstofa. Svörin eru einföld: Það er ekki verjandi að reka skurðstofur með sólarhringsvöktum, þar sem ekkert er að gera, eins og þú kýst að orða það.
Í því getur falist sama sóun á fé og að fá verktaka til að vinna fyrir ráðuneyti og opinberar undirstofnanir það sem ráðuneytin og stofnanirnar geta og eiga að gera sjálfar.
Þú nefnir skipuagsbreytingu á landinu í heild og svo suðvesturhorni landsins sérstaklega. Markvisst er unnið að samhæfingu á starfsemi sjúkrahúsanna á suðvesturhorninu, og er þetta gert með hagkvæma nýtingu skurðstofa að leiðarljósi. Munurinn á vinnulaginu nú og því sem áður var er að nú reynt er að taka tillit til sjónarmiða nærumhverfis viðkomandi stofnana með því að beintengja ákvarðanaferlið almannasamtökum.
Varðandi þær upphæðir sem þú nefnir um samlegðaráhrif vegna skipulagsbreytinga í heilbrigðisþjónustu á landinu öllu sýnist mér forsendur víða skorta í útreikningunum, eins og varað er við óbeint í nýlegum ábendingum Ríkisendurskoðunar. Þar er hins vegar ekki við starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins að sakast. Það er hins vegar full ástæða til að taka mark á ábendingum Ríkisendurskoðunar, enda verður það gert.

Höfundur er heilbrigðisráðherra.

 

Greinin sem vitnað er til:

Stutt fyrirspurn til heilbrigðisráðherra
ÁGÆTI Ögmundur. Tillögur sem þér eru vel kunnar um breytingar á rekstri St. Jósefsspítala tengjast umfangsmiklum skipulagsbreytingum í heilbrigðiskerfinu sem nauðsynlegt er að ráðast í vegna kröfu um hagræðingu í ríkisrekstri.
Hagræðingarkrafan á heilbrigðiskerfið á þessu ári er alls 6.700 milljónir kr. Þar af stefndi forveri þinn að því að ná fram 1.300 milljóna kr. sparnaði með skipulagsbreytingum.
Verði ekki gripið til þessara skipulagsbreytinga þarf að ná þessum 1.300 milljóna króna sparnaði á annan hátt, t.d. með:

– skerðingu á þjónustu

– hækkun þjónustugjalda

– umtalsverðum uppsögnum

Á liðnu ári var nefnd á vegum heilbrigðisráðherra er ég stýrði falið að skoða fjárhagslegan rekstur og faglega möguleika fjögurra heilbrigðisstofnana sem stundum eru kölluð „kragasjúkrahús“. Þetta eru heilbrigðisstofnanirnar á Akranesi, Suðurlandi, í Reykjanesbæ og á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði.

Skurðstofur

Við þessa skoðun kom ýmislegt fram sem vakti athygli í nefndinni og fyrrverandi heilbrigðisráðherra var bent á í minnisblöðum sem þú hefur aðgang að. Meðal annars blasir sú staðreynd við að þegar höfuðborgar- og kragasvæðin eru skoðuð saman þá er til staðar umtalsverð umframafkastageta á sólarhringsreknum skurðstofum.
Ef tvær skurðstofur, auk aðstöðunnar á Landspítala, geta að mestu komið í stað fimm skurðstofa (á Selfossi, í Keflavík og Hafnarfirði) hljóta menn að spyrja: Af hverju ætti að halda áfram að reka sólarhringsvaktir á skurðstofum þar sem lítið er að gera? Er verjandi að nýta takmarkaða fjármuni með þessum hætti?

Höfundur er læknir dr. med., prófessor við Háskólann í Reykjavík.