KRAFAN ER LÝÐRÆÐI
Birtist í DV 03.12.08.
Það sem öðru fremur einkennir fjöldafundi
sem efnt er til þessa dagana er krafan um lýðræði. Fólk vill að
hlustað sé á rödd þjóðarinnar. Fólk hefur fengið sig fullsatt á
klíkuveldi og hvers kyns
baktjaldamakki.Það stendur upp úr hverjum
manni.
Umræðu hafnað
Á undanförnum árum hafa stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar
hafið lýðræðið upp til skýjanna - í orði kveðnu. Nú væri upprunnin
stund samræðustjórnmála, sagði stjórnmálaflokkur fyrir síðustu
kosningar, sennilega til að leggja áherslu á lýðræðisást sína. Nú
ætti að virkja fólk í ákvarðanatöku, menn ættu að ræða málin til
þrautar þar til niðurstaða fengist sem breið sátt væri um. Þetta
var að sjálfsögðu Samfylkingin, stjórnmálaflokkur sem fyrir nokkrum
dögum skrifaði upp á skilmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með bundið
fyrir augun. Og það sem verra var: neitaði að upplýsa þjóð og þing
um forsendur samninga við erlenda lánadrottna - hvað þá um að
umræða væri tekin um þær.
Hinn stjórnarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur talsverða
æfingu í að vanvirða lýðræðið. Ef eitthvað hefur einkennt valdatíma
Sjálfstæðisflokksins allar götur síðan 1991, þá er það ofríki.
Þannig hefur einkavæðing og stuðningur Íslands við stríðsrekstur
heimsvelda einkennst af því að ákvarðanir hafa verið á hendi fárra
einstaklinga sem farið hafa sínu fram á bak við lokuð tjöld. Ef
sala Landssímans hefði verið borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu
ættum við hann ennþá. Ef stuðningur við Íraksstríðið hefði verið
borinn undir þjóðaratkvæði hefði Ísland aldrei verið sett í flokk
"viljugra" þjóða, en það var vinnuheitið sem notað var um
undirgefnustu stuðningsþjóðir Bush og Blairs í Íraksstríðinu.
Þjóðin ráði
Á sínum tíma skrifuðu tugþúsundir manna undir ákall um
þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn. Sú krafa var hunsuð af
Sjálfstæðisflokki og Alþýðuflokki sem sátu saman í ríkisstjórn
þegar Ísland var sett undir EES-samninginn árið 1994.
Þjóðaratkvæðagreiðsla er aðferðafræði lýðræðisins. Niðurstaða úr
slíkri atkvæðagreiðslu er rétt niðurstaða. Ekki geri ég mér grein
fyrir því hver yrði niðurstaða úr þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild
Íslands að Evrópusambandinu eftir upplýsandi umræðuferli í
aðdraganda kosningarinnar. Ég hef hins vegar grun um að eftir slíkt
ferli í aðdraganda kosningar um úrsögn Íslands úr NATO gæti það
hæglega gerst að meirihlutinn kæmist að þeirri niðurstöðu að þetta
aldna hernaðarbandalag væri barn síns tíma og meira að segja
vafasamur félagsskapur.
Hvort eigum við að kjósa um á undan, Evrópusambandið eða NATO?
Hvernig væri að taka NATO fyrst?
Ögmundur Jónasson, alþingismaður