Fara í efni

BEINTENGING Í SVEITIR LANDSINS


Nú árið er senn liðið. Upp í hugann koma atburðir sem tengjast árinu. Á vinnustað mínum hafa orðið mannaskipti. Á haustdögum vék Bjarni Harðarson af þingi, mér liggur við að segja sviplega. Að honum er mikil eftirsjá. Stutt viðkynni en ánægjuleg við litríkan og skemmtilegan mann; karakter. Bjarni er hins vegar ekki genginn út af þjóðbrautinni. Um það er ég sannfærður. Vonast ég eftir áframhaldandi kynnum við þann góða dreng sem Bjarni er.

Meira en slæmt - afleitt - þótti mér að missa af þingi annan mann sem ég hef átt alllöng kynni við. Það er stórvinur minn Guðni  Ágústsson, Framsóknarmaður með stórum staf. Það er mikill sjónarsviptir að Guðna þegar hann nú segir skilið við Alþingi. Guðni var afgerandi í mannlífinu á Alþingi, setti á það sinn sterka svip og skreppur þingið saman við brotthvarf hans og er þó í engu hallað á góða einstaklinga sem koma í manns stað.
Guðni er eins beintengdur inn í íslenska bændamenningu og hugsast getur. Fáum mönnum hef ég kynnst sem er eins heill í hugsun og verki gagnvart íslensku bændastéttinni og íslenskri menningu og er skarð fyrir skildi þegar hann hverfur af þingi. Brúin hjá Framsókn verður aldrei söm. Guðna Ágústssyni og fjölskyldu sendi ég hlýjar kveðjur.

Myndir úr sextugs afmæli mínu 17. júlí 2008. Handtakið traust og eins og jafnan erfitt að sleppa Guðna á góðri stund. Í afmælinu flutti hann mér glimrandi ræðu af alkunnri snilld og færði mér svo að gjöf konung íslenskrar náttúru, lax sem hann hafði sjálfur sett í.