YFIRVEGUÐ LÖGREGLA


Fjölmiðlar fá ekkert sérlega háa einkunn í mínum kladda fyrir fréttaflutning af útifundunum á laugardögum á Austurvelli. Sjálfsagt að segja frá atburðum við Alþingishúsið, mótmælum þar og viðbrögðum lögreglu. Líka eggjakasti, Bónusfána, tómötum og jógúrt.
Hitt má ekki gleymast að segja frá ræðuhöldunum og boðskapnum sem þar er að finna. Hann þyngist og er mjög á einn veg: Ríkisstjórnin víki og efnt verði til kosninga. Strax. Þetta er tónninn. 
Þessu er ég hjartanlega sammála. Ef meirihluti kjósenda vill sömu ríkisstjórn þá fær hann hana.  Þjóðin á líka að fá tækifæri til að skipta um í brúnni; umbylta framboðslistum ef fólk vill svo við hafa og síðan setja einn flokk út og annan inn. Umboðslaus ríkisstjórn er tilræði við lýðræðið. Þetta var tónninn á Austurvelli síðastliðinn laugardag. Hvers vegna fáum við ekki að heyra hann í fjölmiðlum?
Skipuleggjandi laugardagsfundanna, Hörður Torfason, segir þá vera friðsamlega kröfu um breytingar. Sjónarvottar að atburðum við Alþingishúsið segja að kraumað hafi undir, jafnvel að ofbeldi hafi legið í loftinu.

Það er allra hagur að halda friðsemdinni. Á henni á að byggja samstöðuna. Haft er eftir Ingvari Þórissyni, kvikmyndagerðarmanni, í Morgunblaðinu í dag, að hann hafi haft góða yfirsýn yfir það sem gerðist og að lögreglan hafi brugðist "hárrétt við". Ekki látið "æsa sig upp í neitt."
Þetta var líka mín tilfinning þegar ég hlýddi á viðtal sem tekið var við Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjón, sem tekið var á vettvangi á laugardag. Þar kom fram yfirvegun og ekkert nema yfirvegun. Stilling lögreglunnar er styrkur hennar.   

Fréttabréf