Fara í efni

ÞAKKIR TIL FÆREYINGA


Á málstofu BSRB í gær flutti ég Færeyingum  sérstakar þakkir og kveðjur. Sendiherra Færeyja á Íslandi, Gunnvör Balle, var þar á meðal frummælenda. Ég vakti athygli á að Færeyingar, umfram allar aðrar þjóðir, hafa reynst reiðubúnir að rétta Íslendingum hjálparhönd í þrengingum okkar. Það sem greinir Færeyinga frá öðrum þjóðum er að þeirra hjálp er veitt án skilyrða. Þannig láta Færeyingar ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðinn,  lögreglu heimskapítalismans, skipa sér fyrir verkum.
Ég kom þökkum BSRB á framfæri  við sendiherra Færeyja á Íslandi í upphafi málstofunnar  og var kveðjunni fylgt eftir með dúndrandi lófataki fundarmanna.


Ég leyfði mér að vísa í orðsendingu frá Gunnleivi Dalsgard, fyrrum  formanni Starfsmannafélags Færeyja til mín með tilvitnun í hvatningarkveðskap færeyskan. http://www.bsrb.is/um-bsrb/frettir/nr/1416/
Hlýhugur Íslendinga í garð Færeyja er mikill. Það mátti meðal annars finna á baráttufundinum á Austurvelli síðastliðinn laugardag. Þegar vikið var að rausnarskap Færeyinga var ákaft klappað. Hér á síðunni hafa einnig birst góðar kveðjur í bundnu og óbundnu máli, samanber þessa kveðju frá Kristjáni Hreinssyni, skáldi: https://www.ogmundur.is/is/greinar/agaetu-faereysku-fraendur