Fara í efni

OPIÐ FUNDARBOÐ TIL RÁÐAMANNA ÞJÓÐARINNAR


Í kvöld klukkan 20 gangast tveir einstaklingar, þeir Gunnar Sigurðsson, leikstjóri og Davíð Á Stefánsson, bókmenntafræðingur, fyrir opnum fundi í Iðnó í Reykjavík. Á fundinum gefst fólki kostur á að viðra skoðanir sínar og leita svara. Ávörp verða flutt  en ræðumenn eru Einar Már Guðmundsson, rithöfundur, Björg Eva Erlendsdóttir, blaðamaður, Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur og Vilhjálmur Bjarnason, hagfræðingur.  Eftirfarandi er sjáft fundarboðið:

"Mánudaginn 27. október verða þrjár vikur liðnar frá sjónvarpsávarpi Geirs H. Haarde forsætisráðherra þar sem upptakturinn að óvissuástandi síðustu vikna var sleginn. Þessar vikur hefur óvissan um framtíð Íslands stigmagnast og enginn virðist vita í hvað stefnir. Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, ráðherra og stjórnar Seðlabankans hafa stangast á, misvísandi skilaboð berast í gegnum fjölmiðla og allar tölur um framtíðarskuldsetningar eru á reiki. Margir Íslendingar óttast framtíðina og atvinnuleysi og eignamissir vofir yfir stórum hópi Íslendinga.

Fólkið vill bein svör frá þeim sem völdin hafa, einkum við spurningunni: „Hvernig gat þetta gerst?" Allan þennan tíma hefur þjóðin verið ávörpuð í gegnum fjölmiðla og enginn ráðamanna þjóðarinnar hefur séð sóma sinn í því að efna til umræðna með almenningi. Með bréfi þessu er skorað á ráðherra, alþingismenn, Seðlabankastjóra, stjórn Seðlabanka og fyrrverandi bankastjóra einkabankanna að mæta á opinn borgarafund sem haldinn verður í Iðnó, mánudaginn 27. október kl. 20:00. Mætið til umræðna við hinn almenna þegn þessa lands!

Virðingarfyllst, f.h. undirbúningshóps,

Gunnar Sigurðsson, leikstjóri - gus@mmedia.is - 897 7694

Davíð A. Stefánsson, bókmenntafræðingur - david@ljod.is - 864 7200"