NÚ ÞARF AÐ HUGA AÐ ÍSLENSKUM ALMANNAHAG

Birtist í Morgunblaðinu 15.10.08.
MBL - LogoHvers vegna skyldi Vinstrihreyfingin grænt framboð hafa tekið vel í hugmyndir um að mynduð yrði þjóðstjórn þegar séð var hvert stefndi?

Í fyrsta lagi vorum við á þeirri skoðun að svo alvarlegt ástand væri greinilega að skapast að þörf væri á samstilltu átaki allra stjórnmálaflokka. Ekki svo að skilja að við séum ekki reiðubúin að leggja okkar af mörkum sem stjórnarandstaða en hitt væri heppilegra fyrirkomulag tímabundið eða þar til gengið yrði til alþingiskosninga.

Í öðru lagi væri fráleitt að halda stjórnarandstöðunni utangarðs í því uppbyggingarstarfi sem framundan væri. Varla gæti annað vakað fyrir stjórnarmeirihlutanum en að hleypa öllum straumum lýðræðisins að því uppbyggingarstarfi sem væri framundan.

Því miður er það ekki að gerast. Þannig er nú gamall helmingaskiptadraugur kominn á kreik við endurreisn bankanna. Ekki síður eru kvíðvænlegar samningaumleitanir við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking virðast taka fagnandi.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ekki bara lögregla alþjóðauðvaldsins og mætir jafnan til leiks þegar þjóðir komast í þrot til að tryggja að almenningur standi skil gagnvart alþjóðlegu vogunarfjármagni. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur líka reynst frjálshyggjusinnuðum stjórnvöldum dýrmætt skálkaskjól til að framkvæma það sem óvinsælt er með þjóðum, til dæmis að einkavæða velferðarþjónustu og selja auðlindir í hendur alþjóðlegra fjárfesta sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er fyrst og síðast í hagsmunagæslu fyrir.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins á laugardag talar máli peningafrjálshyggjunnar kinnroðalaust hvað þetta varðar: "Vaxandi vilji er fyrir því innan stjórnarflokkanna hér á Íslandi að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um aðstoð til að komast út úr bankakreppunni, eins og Morgunblaðið sagði frá í gær. Það væri engin skömm að því að leita aðstoðar hjá IMF... Í ljósi sögunnar má telja líklegt að sjóðurinn setti skilyrði um harðan aga í ríkisfjármálum og peningamálum og að markaðslausnir verði innleiddar í geirum samfélagsins, þar sem miðstýring hefur verið allsráðandi, til dæmis í landbúnaðarmálum, menntamálum og heilbrigðismálum. Til lengri tíma litið er þetta hvort sem okkur líkar betur eða verr leiðin sem við þurfum hvort sem er að fara."

Það er rangt hjá Morgunblaðinu að þetta séu lausnir framtíðarinnar. Þessar lausnir hafa nú verið dæmdar út af borðinu hjá almenningi svo rækilega að ég hélt að menn voguðu sér ekki að tala á þennan hátt. Það er vissulega rétt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lætur aldrei segjast. Og sannast sagna finnst mér það ekki góð tilhugsun að þeir Árni Mathiesen fjármálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra skuli í þann veginn að setjast að samningaborði um framtíð heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Og ekki treysti ég ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar til þess að semja um framtíð orkugeirans við fulltrúa sjóðsins.

Þess vegna vildi ég þjóðstjórn. En af sömu ástæðu vill stjórnarmeirihlutinn ekki þjóðstjórn, þaðan af síður kosningar. En ætlar þjóðin að láta þá sem verkstýrt hafa okkur inn í þessi vandræði halda áfram eins og ekkert hafi í skorist? Þurfa þau ekki alla vega að fá endurnýjað umboð? Er víst að þau sem nú stýra landinu séu best til þess fallin að standa vörð um almannahag? Það verkefni brennur á okkur sem aldrei fyrr.

Höfundur er þingflokksformaður VG.

Fréttabréf