Fara í efni

KREPPAN GÆGIST Á GLUGGANN


Þetta er heitið á ljóði efir Pétur Pétursson sem á erindi við okkur þessa daga. Pétur var um áratuga skeið þulur og dagskrárgerðarmarður á Ríkisútvarpinu og kynntist ég honum vel þegar ég starfaði þar á áttunda og níunda áratugnum. Pétur lést á síðasta ári, háaldraður maður, en hann var fæddur 1918. Það ár varð Ísland fullvalda ríki. Í mínum huga rímar það einstaklega vel við lífsviðhorf Péturs Péturssonar að hann skuli hafa verið fæddur á fullveldisárinu því hann var mikill Íslendingur, unnandi íslenskrar menningar og tungu, óvenju fróður um sögu þjóðarinnar, ótæmandi sagnabrunnur.
Kreppan gægist nú á glugga Íslendinga. Það gerði hún stundum á uppvaxtarárum kynslóðar Péturs Péturssonar. Við slíkar aðstæður var hugur hans jafnan hjá hinum snauða, verkamanninum, öreiganum. Pétur var baráttumaður. Í brjósti hans brann hugsjónaeldur sem vakti von og hvatti menn til dáða: En láttu ekki bugast, lækning þér búin er, ef leitarðu sannleikans, þorir að leggja við eyra.
Og þegar baráttan hefur skilað okkur samfélagi sem breytt hefur verið til hins betra, þá mun sólin fagna okkur og verna: Og nú skaltu taka upp nýtt og betra lag, svo njóti þess allir, sem jörðin af unaði geymir. Þá heilsar þér fagnandi sólin um sumardag....

KREPPAN GÆGIST Á GLUGGANN

Þú veizt að ég kem og slæ þig kaunum og kvöl,
með kýrnar mögru, sem Faraó konung dreymdi.
Ó, maður. Nú áttu ekki margra kosta völ,
þó miklistu stundum af gulli er um hendur þér streymdi.

Ég er búin til ferðar - þær feta götuna hægt.
Felmtur og ótti læðast um kauphallir þínar,
og jörðin skelfur af örbirgð, gráti og gnægt.
Þér gagna ei lengur verðbréf og stofurnar fínar

því nú er ég komin og gægist á gluggann þinn.
Þig grunaði löngum að svona mundi það fara
og því ertu hljóður og hræðist spegilinn
eins og holdsveikur dóminn, kvíðafull augu þín stara.

En láttu ekki bugast, lækning þér búin er
ef leitarðu sannleikans, þorir að leggja við eyra.
Þér tekst ekki lengur að selja sjálfum þér.
„Systemið klikkar" - geymslurnar taka ekki meira.

Og nú skaltu taka upp nýtt og betra lag,
svo njóti þess allir, sem jörðin af unaði geymir.
Þá heilsar þér fagnandi sólin um sumardag.
Og sölutregðu og fjörefnaskorti þú gleymir.