HUGSAÐ TIL BAKKAVARAR

Haustið 2006 skrifaði ég grein í Morgunblaðið undir
fyrirsögninni, "Bankarnir rífi sig ekki frá
samfelaginu." Tilefni greinarinnar voru aðfinnslur og
glósur sem að mér hafði verið beint fyrir að vara við óvarlegum
fjárfestingum og óhófsbruðli í fjárfestingargeiranum og þeim
áhrifum sem það væri farið að hafa á íslenskt samfélag og ætti
eftir að hafa ef ekki yrði grundvallarbreyting á.
Þetta þóttu óendanlega afturhaldssöm og heimskuleg sjónarmið á
þessum tíma og til marks um að ég hlyti að vera andvígur
bankastarfsemi og jafnvel atvinnurekstri Íslendinga erlendis. Þetta
var að sjálfsögðu út í hött, ég hef alla tíð verið einarður
stuðningsmaður íslenkra banka og dáðst að því sem vel hefur verið
gert af hálfu hálfu Íslendinga ínnanlands og utan. Ég hef hins
vegar viljað breyta lagaumgjörðinni og úthýsa óhófinu.
Í framannefndri grein segir:
"Að lokum, nokkur orð um útrásina. Almennt gleðjumst við landarnir yfir árangri af fjárfestingum erlendis. Í sumum tilvikum hefur líka verið sýnd stórkostleg hugkvæmni og framsýni og vil ég þar nefna árangur bræðranna sem kenna sig við Bakkavör. Bakkavararbræður hafa haslað sér völl í Bretlandi og víðar og margt af því sem ýmsir aðrir íslenskir aðilar eru að gera víðs vegar um heiminn er aðdáunarvert."
Bakkavararbræður hafa byggt fyrirtæki sitt upp frá grunni af
mikilli ósérhlífni og elju og þeir þekkja mótbyr og erfiðleika af
eigin raun. Það vakti athygli mína þegar ég fékk tækifæri til að
hitta þá Lýð og Ágúst Guðmundssyni að máli í London fyrir nokkrum
misserum og kynnast starfsemi á þeirra vegum, að þar voru menn með
ábyrga afstöðu til meðeigenda sinna, sem á meðal annarra voru
íslenskir lífeyrissjóðir. Þetta kom upp í hugann þegar Stöð 2
sagði frá því á föstudag að Bakkavör stæði í harðri baráttu
fyrir lífi fyrirtækisins: "Við erum að hugsa um hag
hluthafa og ekki síst lífeyrissjóðanna sem eiga stóran hlut í
Bakkavör segir Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Existu".
Ábyrgð Gordons Browns, forsætisráðherra Bretlands sem gerði
ólöglega aðför að íslenskum bönkum í Bretlandi í síðustu viku,
hefur stórskert möguleika fyrirtækja á borð við Bakkavör að komast
lífs af úr því gerningarveðri sem nú gengur yfir. Skömm bresku
ríkisstjórnarinnar er mikil. Þeim mun ánægjulegra yrði ef Bakkavör
og önnur flaggskip í íslenskum atvinnurekstri erlendis komast lífs
af.
Hér er slóð í ívitnaða blaðagrein: http://ogmundur.is/samfelagsmal/nr/2910/