Fara í efni

UM FRELSUN ORKUGEIRANS

SAMFYLKING - AUÐHYGGJA
SAMFYLKING - AUÐHYGGJA


Hvað á þá að segja um nýjasta nýtt frá Samfylkingunni sem ég efast ekki um að skemmti einhverjum. Alla vega leiðarahöfundi Morgunblaðsins sem ekki á orð af hrifningu yfir þeirri tillögu Helga Hjörvars, Samfylkingaþingmanni að nú sé ráð að einkavæða einstakar orkuveitur og gera þær að fyrirtækjum undir handarjaðri fjárfesta á markaði: „Með því að frelsa þau úr opinberu eignarhaldi skapast grundvöllur fyrir orkuútrás..."
Það er búið „frelsa" margan reksturinn á undanförnum árum. Finnur Ingólfsson „frelsaði" rafmagnseftirlitið (hagnast nú á því sjálfur)  og bankana (hagnast nú á því sjálfur) , strandsiglingarnar voru „frelsaðar" með því að leggja niður Ríkisskip (á því hagnaðist Ólafur Ólafsson, annar Framsóknarmilljarðamæringur). Þegar Ríkisskipum var slátrað vildu menn setja traust sitt á Eimskip og Samskip og önnur óskabörn síðari tíma. Eimskip lýsti því hins vegar yfir skömmu síðar að það væri hætt að vera skipafélag og yrði nú fyrst og fremst fjárfestingarfélag, rétt einsog Flugleiðir sem varð FL-group.

Fjárfestingargrúppurnar gína yfir orkubransanum

Þarf að ræða þetta mikið frekar? FL-group vildi eignast jarðvarmann á Reykjanesi og bjarga sér þannig frá gjaldþroti, Eimskip hefði eflaust þegið einsog eina stóriðjuvirkjun á Helliðsheiði að hætti Helga Hjörvars, ekki síst þegar vitað er að hún er niðurgreidd af heimilunum á höfuðborgarsvæðinu einsog rökstuðningur með nýlegri stórhækkun á heita vatninu sannar. Skyldu Lehmans Brothers hafa íhugað fjárfestingar í orkubransanum áður en þeir urðu gjaldþrota? Lárus Welding, bankastjóri Glitnis er í engum vafa um að þetta er vænlegur kostur til að græða á. Hann tjáði Agli Helgasyni í Silfrinu um síðustu helgi að hann teldi að nú væri kominn tími til fyrir aðþrengd fyrirtækin í fjárfestingarbransanum"að einbeita okkur að orkunni."

Samhljómur á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks

En hver skyldi vera tilbúinn að kasta bjarghring til fjárfestingarbransans? Helgi Hjörvar orðar hugsun sem Hannes Hólmsteinn og félagar fara hljótt með þessa dagana. Alla vega á meðan spilaborgin er að hrynja: „Það er athyglisvert að þessi rödd heyrist nú úr Samfylkingunni og bendir til að meiri samhljómur kunni að vera innan stjórnarflokkanna um málið en margur hélt." Nei, kæri Moggi, mér kemur þetta tal ekkert á óvart. Flokk sem hjálpar Íhaldinu að einkavæða heilbrigðisþjónustuna munar ekkert um að rústa orkugeiranum.
Þegar síðan skyggnst er á bakvið allt talið um útrásarvíkingana á sviði orkumála þá er það ekki hjálpar- og uppbyggingarstarf sem vakir fyrir fjárfestunum heldur hvernig græða megi á því að komast yfir auðlindir annarra þjóða.

Hvers vegna má þjóðin ekki hagnast?

Skyldi einhvern tímann koma að því að Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og ritstjórn Morgunblaðsins beini velvilja sínum að almannahag í stað þess að ganga erinda fjárplógsafla?
Ef hægt er að græða á virkjun, hvers vegna má hagnaðurinn þá ekki renna til þjóðarinnar? Fjárgróðamenn kunna að kætast yfir boðuðum veisluhöldum Helga Hjörvars. Ég leyfi mér hins vegar að efast um ánægju almennings með þetta nýjasta útspil Samfylkingarinnar.