Fara í efni

TVÆR KONUR Í LAUGARDAGSMOGGA


Í vikunni voru samþykkt lög um nýja sjúkra- og innkaupastofnun á sviði heilbrigðismála. Lögin hafa verið gagnrýnd á þeirri forsendu að með þeim sé stigið afgerandi skref í þá átt að færa heilbrigðisþjónustu landsmanna inn í viðskiptaumhverfi. Um þetta hefur verið nokkuð erfitt að fá málefnalega umræðu í þjóðfélaginu. Það er helst að myndbirting á þessari heimasíðu (sjá hér https://www.ogmundur.is/is/greinar/tripoli-tengingin) hafi vakið forvitni manna og þá hvort Guðlaugi Þór, heilbrigðisráðherra hafi mislíkað myndbirtingin. 

Heilbrigðisráðherra tíundar afrek Guðlaugs Þórs

Þannig biritir Morgunblaðið í dag flenniviðtal Kobrúnar Bergþórsdóttur við ráðherrann þar sem hin brennandi spurning er í öndvegi:
KB: „Ögmundur Jónasson setti mynd af þér með Gaddafi Líbíuforseta á heimasíðu sína til að leggja áherslu á þá skoðun sína að þú sért á rangri braut með Sjúkratryggingalögin. Tekurðu gagnrýni nærri þér?
Og Guðlaugur Þór svarar:
„Málefnaleg gagnrýni er eðlilegasti hlutur í heimi. Stjórnmálamenn sem kveinka sér undan gagnrýni andstæðinga sinna eiga að hasla sér völl á öðrum vettvangi. Þessi framsetning Ögmundar dæmir sig hins vegar sjálf. Ef Ögmundur Jónasson vill líkja samferðamönnum sínum við fjöldamorðingja þá er það hans mál."
Þar með er búið að afgreiða hið umdeilda frumvarp í viðtalinu og hægt að láta ráðherrann um að tíunda afrek sín í heilbrigðiskerfinu. Þeir sem til þekkja vita betur. En getur verið að svo rækilega sé búið að múlbinda stjórnendur á heilbrigðisstofnunum að þeir þori ekki lengur að segja þjóðinni frá afleiðingum fjársveltistefnu ríkisstjórnarinnar? Og hvað með fjölmiðlana?

Pólitísk Florence Nightingale

Eitt er víst að aðhaldið kemur ekki lengur frá Morgunblaðinu. Á lokaskeiði Styrmis var þess jafnan gætt að slíkt aðhald væri fyrir hendi af hálfu Morgunblaðsins. Nú virðast mér menn á þeim bæ bera meiri umhyggju fyrir pólitískri velferð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar en framtíð íslenska heilbrigðiskerfisins. Þriðjungurinn af fyrrnefndu opnuviðtali við ráðherrann er mynd af höfði Guðlaugs Þórs ráðherra, sennilega til að tryggja að enginn velkist í vafa um á hvaða búk það sitji. Þessi líkn gagnvart Guðlaugi Þór er unnin af Kolbrúnu Bergþórsdóttur, en hún virðist hafa fengið sérstakt hlutverk á blaðinu sem eins konar pólitísk Florence Nightingale fyrir stjórnarmeirihlutann á Alþingi. Ef einhver þykir hafa lemstrast í pólitískum sviptingum er Kolbrún jafnan mætt til að líkna og lækna. Sérstaklega á þetta við um þá sem augljóst er að eru vildarvinir Morgunblaðsins.

Hver þarf að biðjast afsökunar?

Síðan er það Guðfríður Lilja Grétarsdóttir með sinn vikulega laugardagspistil í Morgunblaðinu. Hún hefur sýnt það í skrifum sínum að hún þarf enga opnu til að koma boðskap sínum á framfæri enda einhver besti penni landsins. Alltaf er það tilhlökkunarefni að lesa skrif Guðfríðar Lilju en ég neita því ekki að skrif hennar í morgun glöddu hjarta mitt sérstaklega. Guðfríður Lilja spyr varaformann Samfylkingarinnar, Ágúst Ólaf Ágústsson, sem vill að ég biðjist afsökunar á framferði mínu, hvort ekki séu einhver önnur og meira aðkallandi verkefni fyrir „Jafnaðarmannaflokk Íslands" að sinna en að  knýja á um afsökun frá téðum Ögmundi; hvort jafnvel gæti verið að hann sjálfur og félagar hans í stjórn landsins þyrftu að biðjast afsökunar á einu og öðru.

Hér er pistill Guðfríðar Lilju:

Biðjist afsökunar!

Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar lýsti því yfir í vikunni að Ögmundur Jónasson ætti að biðjast opinberlega afsökunar á því að hafa sett Guðlaug Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra við hliðina á Gaddafi Líbýuleiðtoga á mynd á heimasíðu sinni.

Ögmundur hefur í mörg ár haldið úti einni öflugustu heimasíðu landsins, www.ogmundur.is. Þar er að finna hárbeitta pistla, innihaldsríka og fróðlega, og iðulega fylgja heimatilbúnar myndir sem skeytt er saman héðan og þaðan í pólitískt skop.

Ýmsir helstu leiðtogar vestrænna ríkja keppast nú um að taka í hönd Gaddafi, hrósa honum fyrir að selja opinberar eigur líbýsku þjóðarinnar í hendur fjölþjóðlegum einkaaðilum. Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti og Condoleeza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna eru meðal þeirra sem nú eru hæstánægð með Gaddafi. Condoleeza skartar einmitt hálsmeni frá Ingibjörgu Sólrúnu.

Hvers vegna úr varð fjaðrafok hjá tilteknum vinum heilbrigðisráðherra út af skopmynd Ögmundar er umhugsunarefni. Á sama tíma var afgreitt frá Alþingi frumvarp sem leggur tæki einkavæðingar á heilbrigðisþjónustu Íslendingabeint upp í hendurnar á Sjálfstæðisflokknum. Ætlar Samfylkingin að biðjast afsökunar á því?

Í ljósi þess að varaformaður „Jafnaðarmannaflokks Íslands" hefur krafist afsökunarbeiðni frá Ögmundi langar mig að fara fram á afsökunarbeiðni valdhafa á eftirfarandi:

-Að nauðbeygja þurfi ríkisstjórnina til að standa við brotabrot af gefnum loforðum, m.a. um bætt kjör kvennastétta, og að stétt ljósmæðra sé ítrekað sýnd lítilsvirðing;

-Að 100 milljónum af fé skattborgara sé sóað í eina heræfingu (af mörgum komandi), sem er svipuð fjárhæð og nægir til að leiðrétta kjör ljósmæðra yfir heilt ár;

-Að nýtt ríkisbákn hermála rísi þar sem milljarðarnir flæða á meðan velferðarkerfið berst í bökkum;

-Að álvæðing Íslands, stóriðja og stórfelld náttúruspjöll séu á fullri ferð þvert á ítrekuð loforð um „Fagra Ísland";

-Að ráðherrar með „Jafnaðarmannaflokk Íslands" við völd skuli enn ekki hafa afnumið eigin sérréttindi í eftirlaunum, á sama tíma og misskipting í samfélaginu hefur aldrei verið meiri.

Þetta er vissulega ekki tæmandi listi, hér er bara fátt eitt nefnt.

Ef þau sem bera ábyrgð á því sem að ofan greinir láta svo lítið að biðjast opinberlega afsökunar - þótt ekki sé nema á einu einstöku atriði - þá skal ég persónulega tryggja að Ögmundur Jónasson biðji einkavæðingarvin varaformanns Samfylkingarinnar afsökunar á að hafa skeytt honum saman við Frakklandsforseta að heilsa Líbýuleiðtoga.

Sanngjarn díll?

glg@althingi.is

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir