Fara í efni

TRÍPOLÍ-TENGINGIN


Á borði Alþingis er nú til afgreiðslu frumvarp sem einkavæðingarráðherra heilbrigðismála, Guðlaugur Þór Þórðarson, er í forsvari fyrir. Hér er að sjálfsögðu átt við hina nýju Sjúkratrygginga- og innkaupastofnun á heilbrigðissviði, sem til stendur að setja á laggirnar. Stjórn stofnunarinnar er þegar orðin til áður en starfseminni hefur verið settur lagarammi. Þetta eru óvenjuleg vinnubrögð. Yfirleitt er byrjað á því að setja starfsemi lög. Síðan koma stofnanir til sögunnar samkvæmt skilgreiningum laganna.
Frumvarp Guðlaugs Þórs gengur út á að þoka heilbrigðiskerfinu nær markaðstorginu. Í hinni nýju stofnun eiga að fara fram viðskipti kaupenda og seljenda að hætti verslunar og viðskipta. Smám saman verður sjúklingur viðskiptavinur og læknir verður bisnissmaður. Í greinargerð frumvarps  segir að stuðst sé við reynslu Svía og Breta í þessum efnum. Þessar þjóðir hafi markað brautina.
En þarf þá ekki að ræða reynslu þeirra? Ekki verður séð að ríkisstjórninni þyki þess vera þörf. Ekkert frekar en að Moammar Gaddafi, Líbíuforseta finnist nauðsynlegt að kafa mjög djúpt áður en hann einkavæðir eignir samfélagsins í heimalandi sínu, Líbíu.
Í helgarútgáfu Fréttblaðsins segir frá fundi sem Gaddafi átti fyrir fáeinum dögum með Condoleezu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Þau hittust í Trópolí, höfðuborg Líbíu. Á fundi þeirra gerði Gaddaffi hosur sínar grænar fyrir bandarísku auðvaldi. Hann sagði að nú yrðu gósentímar í Líbíu fyrir fjárfesta, enda ætlunin skv. fréttinni að setja allar opinberar eigur Líbíumanna í hendur einkaaðilum.  „... eftir fjóra mánuði verður allt í ykkar höndum", segir Gaddafi og fær klapp á kollinn frá Rice.  
Þarna talar maður sem ekki þarf að rökræða málin hvað þá grafast fyrir um líklegar afleiðingar gjörða sinna. Bandaríkjamenn og fjölþóðafyrirtæki ætla sér að græða á Gaddafi. Hverjir ætla sér að græða á einkavæðingu heilbrigðiskerfisins íslenska?
Ekki svo að skilja að málflutningur Guðlaugs Þórs og Gaddafis sé sambærilegur. Það er hann ekki. Hitt eiga þeir sameiginlegt að þurfa ekki að færa djúp rök fyrir afstöðu sinni þegar ráðist er í grundvallarbreytingar á samfélaginu.
Nærri báðum standa viðhlæjendur sem annað hvort nenna ekki að setja sig inn í málin eða telja að það kæmi þeim sjálfum í koll að setja fram stífa gagnrýni. Eða hvað haldið þið Samfylkingarráðherrar? Myndi það kosta ykkur ráðherrastólana að stoppa einkavæðingu Íhaldsins?