Fara í efni

HVORT ÞARF AÐ SENDA Í MEÐFERÐ LÁRUS EÐA INGIBJÖRGU?


Lárus Welding, bankastjóri Glitnis sat fyrir svörum í drottningarviðtali ní Silfrinu hjá Agli Helgasyni í dag. Lárus var brattur og vel fór um hann í sæti sínu. Hann sagði að vandi fjárfesta væri sumpart sjálfskaparvíti. Þeir tóku áhættu, sagði Lárus, nýkeyptur úr Landsbanka fyrir 300 milljónir. Ekki veit ég hver mánaðarlaunin eru hjá þeim á efstu hæðinni hjá Glitni. Hitt veit ég að það er ekki einkamál fjárfesta hvernig þeir hafa skuldsett íslenskt efnahagskerfi. Áhyggjur almennings snúa að því hvort þjóðfélagið allt þurfi að súpa seyðið af „áhættunni" , sem fjárfestarnir hafa verið að taka á umliðnum árum. Áhættan var nefnilega ekki aðeins tekin fyrir eigin hönd, heldur okkar allra.
En Lárus Welding var ekki á því að horfa í neinn baksýnisspegil. „Við erum það sem við erum" sagði bankastjóri Glitnis. Nú væri að halda inn í framtíðina. Hirðmaður drottningar vildi fá að vita hvert sú leið lægi. „Ég tel að við eigum að einbeita okkur að orkunni", var svarað úr hásæti drottningar.

Víkur nú sögu, til annarrar drottningar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður hinnar nútímavæddu Samfylkingar - sem flestum flokkum fremur hefur mært markaðsvæðingu samfélagsins á undanförnum áratug, studdi  einkavæðingu bankanna, raforkugeirans og nú síðast heilbrigðisgeirans - lét á sér skilja um helgina að hún hefði alltaf haft miklar efasemdir um þessa villtu markaðshyggju. Nú þyrftu Íslendingar „að þétta raðirnar í baráttu gegn verðbólgu og senda áhættufíklana í meðferð."

Lárus Welding talaði reyndar líka um nauðsyn þess að þétta raðirnar. Ég held að það hafi verið í setningunni á undan þessari um orkugeirann, að nú þyrfti að beina gróðasókninni þangað. Hann minntist ekki á heilbrigðisþjónustuna. Það kom mér svolítið á óvart því Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hefur lagt áherslu á að þar séu að opnast miklir möguleikar. Kannski er þetta einhver verkaskipting í fjárfestahópnum. Kannski ætla einhverir aðrir að nýta sér þá hetjudáð Samfylkingarinnar að samþykkja sjúkratryggingastofnun Guðlaugs Þórs, einkavæðingarráðherra heilbrigðismála. Stofnunin hvílir, sem kunnugt er, á lögum sem skilgreinir öll samskipti í heilbrigðiskerfinu á viðskiptavísu. Þetta auðveldar einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar.
Samfylkingin greiddi atkvæði með þessari lagabreytingu. Talsmenn hennar höfðu á orði að þetta væri sérlega nútímaleg lagasetning. Svipað orðalag og þegar bankarnir voru einkavæddir á einu bretti hér um árið - án skilyrða og varna í þágu almennings. Þar var tekin áhætta. Sú áhætta jafnast þó sennilga ekki við áhættuna sem  tekin er við að undirselja orkugeirann, að ekki sé minnst á heilbrigðisþjónustuna, frumskógarlögmálum markaðarins. 

Nú er spurningin þessi, hvort á að senda forsvarsfólk Glitnis eða Samfylkingarinnar í meðferð?