HUGSUM STÓRT MEÐ ÞORLEIFI


Það fer ekki fram hjá neinum Reykvíkingi  sem að jafnaði  leggur leið sína um miðborgina að vandi útigöngumanna fer vaxandi.  Þeir ráfa um  í reiðileysi um borgina, illa á sig komnir enda margir langdruknir og húsnæðislausir.
Athygli vakti viðtal við Þorleif Gunnlaugsson, borgarfulltrúa Vinstri grænna í Reykjavík,  í Ísland í dag á Stöð 2 í fyrradag um málefni þessa fólks. Þorleifur kvaðst hafa setið í hálft annað ár í nefnd sem leita á lausna fyrir þetta fólk  og nú vildi hann sjá niðurstöður; að komist yrði frá orðagjálfri til athafna. Útgangsmenn væru upp til hópa fíklar og margir með geðræn vandamál, hvort tveggja skilgreint sem sjúkdómar. Þjóðfélaginu bæri skylda að taka myndarlega á og sjá útigangsfólki fyrir húsnæði og nauðsynlegri meðferð og aðhlynningu. Úrræðin væru til og húsnæðið einnig. Ef ekki, ætti einfaldlega að opna Ráðhúsið!  Við skulum nefnilega ekki gleyma því, sagði Þorleifur, að "það á að hjálpa öllu sjúku fólki".
Það sem var frískandi við þetta viðtal við þorleif Gunnlaugsson var hve yfirvegaður en jafnframt afdráttarlaus hann var. Þegar kemur að vanda fátækasta fólksins á Íslandi hefur á undanförnum árum verið hugsað smátt  - agnarsmátt.  Á sama tíma og milljarðamæringarnir hafa bruðlað út í hið óendanlega hefur verið horft í hvern einseyring til hinna allra snauðustu. Þorleifur hvetur okkur til að  segja þessari smásálarmennsku stríð á hendur. Þetta var boðskaðurinn sem  lá í viðtalinu við hann.
Við hljótum að taka undir með þeim sem svona talar. Við þurfum ekki fleiri nefndir sem góna í gaupnir sér mánuðum og árum saman.  Fylkjum okkur að baki borgarfulltrúa VG  og knýjum yfirvöld til að gripa til róttækra og alvöru aðgerða; þess vegna opna Ráðhúsið!
Hér er slóð á sjónvarpsviðtalið við ÞG: http://vefmidlar.visir.is/VefTV/?channelID=STOD2&programID=b2fab606-e8f9-4500-a4d9-15008d8978da&mediaSourceID=38cddc10-47a5-4166-9c4d-78b5be472400&mediaClipID=abb46c28-f466-45b7-a336-7710c942a156  

Fréttabréf