Fara í efni

BUSH ÞJÓÐNÝTIR - JÓHANNA EINKAVÆÐIR


Í fréttum fáum við nú að heyra að Bandaríkjastjórn hafi ákveðið að taka með valdboði yfir drjúgan hluta af íbúðalánasjóðakerfinu í Bandaríkjunum. Stærstu lánastofnanirnar á íbúðamarkaði hafi verið fluttar undir ríkisforsjá. Þær fjármálastofnanir sem hér um ræðir væru búnar að sýna óráðsíu og stjórnendur þeirra svo slaka dómgreind að þær væru nú komnar í þrot. Nú ætti skattborgarinn ekki annarra kosta völ en að grípa í taumana og taka sjóðina að sér.
Þjóðnýting hefur ekki verið efst á blaði hjá Bush Bandaríkjaforseta og félögum hans til þessa. Þessi gjörð þeirra nú er til marks um hve ástandið er alvarlegt. Litið er svo á að þetta sé eina færa leiðin til að forða frekara hruni á bandarískum húsnæðismarkaði. Þessar hræringar í Bandaríkjunum minna okkur á hve miklu máli það skiptir að íbúðalánamarkur og fjármálastofnanir sem þjónusta hann séu í góðu lagi.

Á Íslandi hafa bankarnir farið offari í fjárfestingum á undanförnum árum. Um það deila menn ekki. Það er heldur ekki um það deilt af hálfu þeirra sem gerst til þekkja að Íbúðalánasjóður hafi reynst húsnæðiskaupendum mikilvæg kjölfesta og varnað því að vaxtabyrðarnar eru ekki enn þyngri en þær þó eru. Þetta má þakka ríkisábyrgðinni að baki íbúðalánakerfinu.

En hvað gerist við þessar aðstæður?  Skyldi ríkisstjórnin þakka sínum sæla fyrir að eiga traustara íbúðalánakerfi en Bandaríkjamenn hafa getað státað af? Skyldi hún fagna því að búa þegar við fyrirkomulag sem Bandaríkjamenn eru nú að koma á með ærnum tilkostnaði? Skyldi hún segja: Bush er að reyna að ná barninu upp úr brunninum - við byrgðum hins vegar brunninn!

Nei, ríkisstjórn Íslands gerir ekkert af þessu tagi. Þvert á móti þá ákveður hún að eyðileggja okkar kerfi og halda þar með út í sama fen og Bandaríkjamenn eru að reyna að komast upp úr! Ákvörðun um að meina Íbúðalánasjóði að veita almenn íbúðalán með bakábyrgð ríkisins er ekkert annað en einkavæðing á því litla sem eftir var af félagslegu íbúðalánakerfi á Íslandi. Skattborgaranum er að vísu ætlað að sitja uppi með „félagsleg úrræði" . Það verður hins vegar í fyrirkomulagi sem er verra fyrir íbúðalánakaupendur almennt og skattborgarann einnig.
Skrýtið. Á meðan Bush þjóðnýtir einkavæðir Jóhanna.