Fara í efni

STJÓRNMÁL OG FJÖLMIÐLAR

DV
DV

Birtist í DV 30.07.08.
Íslenskt samfélag hefur undirgengist miklar breytingar á undanförnum hálfum öðrum áratug. Margir þættir sem áður heyrðu undir almenning hafa nú verið  færðir undir yfirráð fjársterkra einstaklinga.  Með öðrum orðum, auðvaldið hefur styrkst en almannavaldið veikst.
Angi af þessari þróun er yfirráð yfir fjölmiðlum. Stjórnmálaflokkarnir sem slíkir heyra hvorki  undir almannavaldið  né eru þeir fyrirtæki sem lúta einstaklingum eða peningavaldi. Alla vega ekki að forminu til. Þeir standa einhvers staðar þarna á milli, eru í bland lokaðir klúbbar og lýðræðislegar stofnanir.

Fjölbreytni eftirsóknarverð

Á sínum tíma þótti æði mörgum það vera mjög gagnrýnivert að fjölmiðlar heyrðu undir stjórnmálaflokka. Flokksblöðin voru þannig  í þeirra augum ekki fínn pappír. Sagt var að stjórnmálaöflin ættu að sæta aðhaldi en ekki ráða yfir þeim tækjum sem beitt væri í því skyni að veita upplýsingar og aðhald.
Ég var ekki í hópi þeirra sem tók undir gagnrýnina á flokksmálgögnin. Taldi að því meiri fjölbreytni  sem væri í fjölmiðlaflórunni þeim mun betra. Og síðan mætti ekki gleyma því að einn stjórnmálaflokkur gæti veitt öðrum aðhald enda flokksmálgögnunum óspart beitt þannig. Síðan væri hættan sú, að pólitíkin myndi þröngva sér inn í heim fjölmiðlana  í gegnum peningavaldið, hvort sem beitt yrði eignarhaldi eða mætti auglýsinganna.
Þrátt fyrir þessa afstöðu fagnaði ég tilkomu nýrra „óháðra" fjölmiðla, DV, Helgarpóstsins og fleiri sem komu fram á sjónarsviðið á níunda áratug  síðustu aldar og síðar eftir að fjara tók undan gömlu flokksmálgögnunum. Þótti mér blandið gott.

Andar Baugur ofan í hálsmálið?

Sú hætta sem nú blasir við er að blandan gerist sífellt einsleitari. Þá er augljóst að pólitísk öfl lögðu ekki upp laupana þótt hin eiginlegu „flokksmálgögn" hyrfu.
Við þekkjum hvernig ríkisstjórnin dró úr aðkomu lýðræðislega kjörinna fulltrúa að Ríkisútvarpinu með því að gera það að hlutafélagi. Með þeirri breytingu varstofnunina færð nær valdhöfum, ekki fjær þeim. Enn á eftir að koma í ljós hver áhrif þessa verða. Síðan eru það prentmiðlarnir. Eignarhaldið á þeim er komið í hendur sömu aðila og hafa undirtökin í stjórnmálum og efnahagslífi.
Samhljómur er að aukast að nýju með Morgunblaðinu  og frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins. Eflaust eru hinir harðpólitísku tónar nýjum eigendum Mogga að skapi. Hvað með 24 stundir sem er í eigu sömu aðila og Morgunblaðið? Hve lengi skyldu blaðamenn þar fá að starfa óáreittir? Hvað með Fréttablaðið og DV? Andar Baugur þar ofan í hálsmálið á ritstjórninni?
Og Viðskiptablaðið - skyldi ritstjórnin verða vör við eigendur sína frá Bakkavör?

Pólitíkin hvarf ekki með flokksmálgögnunum

Margir fréttamenn sýna góða tilburði og sumir fjölmiðlar taka ágæta spretti. Það á til dæmis stundum við um þetta blað. DV er á góðri leið með að verða ómissandi. Vona ég að ritstjórn DV - og annarra fjölmiðla einnig - takist að starfa þannig að þeir verði aldrei þjónar peningavaldsins sem að baki þeim stendur og minnist þess jafnan að skyldurnar snúa að almenningi og samfélagi.
Staðreyndin er nefnilega sú að póltíkin hvarf ekki með flokksmálgögnunum. Hún lifir góðu lífi. Það sem verra er: Nú er það fyrst og fremst sú hlið stjórnmálanna sem samtvinnast auðvaldinu sem ræður yfir íslenskum fjölmiðlum. Þetta setur ríkar skyldur á  alla þá sem við fjölmiðla starfa. Verkefnið er nefnilega að veita upplýsingar og valdhöfum í þjóðfélaginu aðhald.
Ögmundur Jónasson, alþingismaður